fim 06. janúar 2022 07:30
Jóhann Þór Hólmgrímsson
KSÍ hafnaði Kára - Sögulega velgengnin má ekki hverfa
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason segir í samtali við Viðskiptablaðið að KSÍ hafi hafnað honum er hann sótti um að verða yfirmaður fótboltamála hjá sambandinu. .Þetta kemur fram á 433.is

Kári vildi taka við af Arnari Þór Viðarsyni sem er bæði landsliðsþjálfari og yfirmaður fótboltamála í dag.

„Ég átti afar góðar samræður við Guðna Bergsson, sem þá var formaður KSÍ, og Arnar [Þór Viðarsson]. Mér fannst eðlilegt að nýr maður myndi stíga inn í starf yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ eftir að Arnar tók við sem aðalþjálfari, enda er það fullt starf og rúmlega það,“ segir Kári við Viðskiptablaðið í áhugaverðu viðtali.

Honum fannst rétt að einhver sem var í kringum gullkynslóðina hefði átt að fá starfið.

„Ástæðan fyrir því að ég sótti um starfið er sú að fyrir mér þá verður einhver sem hefur verið í kringum landsliðið, sem hefur náð frábærum árangri á undanförnum árum, að gegna þessari stöðu. Það þarf ekkert endilega að vera ég, það getur allt eins verið einhver annar af mínum fyrrverandi liðsfélögum.“

„Auk þess verður að gæta þess að þessi vitneskja sem varð til í þessari sögulegu velgengni hverfi ekki út úr sambandinu. Annars er landsliðið alltaf í einhverjum uppbyggingarfasa. Sem dæmi hefur oft verið talað um að yngja þurfi upp landsliðshópinn, sem er skiljanleg umræða. Það má þó ekki gleyma því að í A-landsliðinu snúast hlutirnir fyrst og fremst um að ná árangri. Ef það er með reglubundnum hætti verið að fá inn nýja þjálfara sem ekki tengdust landsliðinu meðan vel gekk og því ekki öðlast þekkingu á hvað þurfi til að vinna landsleiki, er hætta á því að sú kunnátta hverfi út úr sambandinu. Það er þetta sem ég hef áhyggjur af og þess vegna sótti ég um starfið.“

Kári lagði skóna á hilluna í sumar eftir að hafa orðið Íslands og bikarmeistari með Víkingi. Hann er nú yfirmaður fótboltamála hjá félaginu.
Athugasemdir
banner
banner
banner