Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 06. febrúar 2023 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Gat ekki spurt marga út í Ísland - „Mjög ánægður að hafa tekið þá ákvörðun"
Ekki margir finnskir leikmenn spilað hér á landi
Dani Hatakka í leik með Keflavík síðasta sumar.
Dani Hatakka í leik með Keflavík síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson tók aftur við FH eftir síðustu leiktíð.
Heimir Guðjónsson tók aftur við FH eftir síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá FH á undirbúningstímabilinu.
Úr leik hjá FH á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gekk í raðir Keflavíkur fyrir síðustu leiktíð.
Gekk í raðir Keflavíkur fyrir síðustu leiktíð.
Mynd: Keflavík
FH stefnir auðvitað á að gera betur næsta sumar.
FH stefnir auðvitað á að gera betur næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Ég kom aftur fyrir nokkrum vikum síðan, um miðjan síðasta mánuð. Ég var hérna líka fyrir ári og þá held ég að veðrið hafi verið enn verra. Svona er þetta bara," sagði Dani Hatakka, nýr miðvörður FH, í samtali við Fótbolta.net í gær. Það er ekkert sérlega mikill munur á veðrinu á Íslandi og í Finnlandi.

Hatakka er á leið inn í sitt annað tímabil á Íslandi eftir að hafa leikið með Keflavík í fyrra. Hann spilaði afar vel með Keflavík sem kom sérfræðingum á óvart.

„Ég var með nokkra möguleika, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Ég hugsaði þetta í langan tíma en það var eitthvað við FH sem heillaði mig mjög mikið."

„Þeir fengu líka Heimir (Guðjónsson) sem þjálfara og það gerði mig enn spenntari. FH er eitt stærsta félagið á Íslandi og ég fékk mjög góða tilfinningu. Ég hlustaði á þessa tilfinningu."

Vildi prófa að breyta til
Hatakka hafði verið að spila í efstu deild í Finnlandi áður en hann kom til Ísland en hann hefur einnig leikið í Noregi. Hvernig endaði hann í Keflavík í fyrra?

„Ég hef spilað mörg tímabil í efstu deild í Finnlandi. Ég vildi prófa að breyta til fyrir síðustu leiktíð. Ég var með opinn huga gagnvart því. Það var mikilvægt fyrir mig að finna félag í efstu deild og Keflavík hafði samband við mig snemma. Við fórum svo í viðræður."

„Ég var með nokkra möguleika en ég hlustaði á tilfinninguna í maganum. Ég var ekki alveg viss um það út í hvað ég væri að fara þar sem það hafa ekki verið margir finnskir leikmenn hér á landi. Ég gat ekki spurt marga út í Ísland. Ég er mjög ánægður núna að hafa tekið þá ákvörðun."

Hann er virkilega ánægður með lífið á Íslandi. „Það er einstakt að búa á Íslandi. Fólkið hérna er mjög vingjarnlegt og tekur vel á móti þér. Fótboltinn er stærsta íþróttin hérna og er mjög vinsæll. Ég kann að meta það. Í Finnlandi er fótbolti vinsæll en við erum líka með íshokkí þar - sem er stærsta íþróttin. Það er gaman að vera fótboltamaður hérna."

„Fólk í Finnlandi veit ekki mikið um íslenskan fótbolta. Ísland er eins konar ráðgáta fyrir fólk í Finnlandi. Ég var heppinn að fá vini og fjölskyldu í heimsókn á síðasta ári. Þeim fannst landið magnað. Ég hef notið þess að vera hérna með kærustunni minni. Við erum mjög ánægð hérna. Ég hugsa alltaf að það er gott að fara erlendis og víkka sjóndeildarhringinn. Ég get alveg séð fyrir mér að vera lengi hérna, af hverju ekki? Ég kom fyrst bara til að vera í eitt ár og núna er ég að fara inn í annað árið mitt. Aldrei segja aldrei."

Engin dramatík
Keflavík átti mjög fínt tímabil í fyrra og kom á óvart með því að lenda í sjöunda sæti en fyrir tímabil var liðinu spáð falli.

„Við áttum mjög gott tímabil og við vorum nálægt því að gera enn betur. Sem félag getur Keflavík verið mjög ánægt með síðasta tímabil. Persónulega er ánægður að hafa verið í stóru hlutverki. Þetta var að einhverju leyti betra en við bjuggumst við en við vorum með mjög góða leikmenn."

„Já, ég var ánægður með mína frammistöðu. Ég spilaði alla leikina nema einn þar sem ég var í banni. Það væri lygi að segja að ég væri ekki ánægður með frammistöðu mína. Heilt yfir var þetta frekar stöðugt hjá mér sem ég er ánægður með."

Það hafa margir leikmenn kvatt Keflavík eftir síðasta tímabil og hafa verið sögur um fjárhagsvandamál innan félagsins þó Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar félagsins, blási á þær sögur. Hattaka hefur ekkert illt að segja um Keflavík.

„Það er erfitt fyrir mig að tala fyrir aðra leikmenn en í mínu tilviki fékk ég bara eins árs samning. Það er hluti af fótbolta þegar leikmenn eru að standa sig vel og samningurinn er að renna út að þá er eðlilegt að skoða aðra möguleika. Það var eitthvað sem ég vildi gera og ég var mjög opinn með það í samskiptum við Keflavík. Við áttum góð samtöl og það var engin dramatík. Það eru engar brenndar brýr, allavega ekki frá minni hálfu."

Það eru gerðar miklar kröfur á þig
FH hefur verið að æfa vel núna á undirbúningstímabilinu og heyrist það að liðið sé í mjög góðu formi. FH-ingar unnu Þungavigtarbikarinn á dögunum eftir sigur á Breiðabliki í úrslitaleiknum.

„Aðstæðurnar hér eru stórkostlegar, það er mjög ánægjulegt að mæta á vinnustaðinn á hverjum degi. Hér er í Kaplakrika er allt sem þú þarft. Gæðastigið á æfingum er mjög gott, það er hátt tempó og það eru gerðar miklar kröfur á þig. Við höfum verið að leggja mikið á okkur."

„Ég hef verið að kynnast leikmönnunum betur. Ég þekkti nokkra þeirra áður og ég spilaði á móti hinum þeirra. Það er mjög gaman að vera hluti af þessu liði," segir finnski varnarmaðurinn.

Vilja gleyma síðasta tímabili
FH-ingar vilja gleyma síðasta tímabili þar sem liðið hélt sér uppi á markatölu. Hatakka segir að verkefnið sé spennandi, að hjálpa FH að komast aftur á þann stað sem það var á fyrir nokkrum árum.

„Ég er klárlega vongóður um að liðið geti komist ofar í töflunni. Síðasta tímabil var mjög erfitt og það verður ekki auðvelt að komast til baka - það gerist ekki að sjálfu sér - þó FH sé stórt félag. Við þurfum að leggja á okkur mikið á hverjum degi," segir Hatakka en hjá FH hittir hann markvörðinn Sindra Kristinn Ólafsson en þeir léku saman með Keflavík á síðustu leiktíð.

„Það hjálpaði mikið að hafa Sindra fyrstu dagana til að venjast hlutunum. Hann situr við hliðina á mér í búningsklefanum. Ég talaði líka mikið við hann eftir síðustu leiktíð eftir að hann skrifaði undir hérna. Það var mjög gott að geta spurt hann út í félagið. Ég held að FH hafi líka spurt Sindra út í mig. Hann var mikilvæg tenging á milli og það er gott að vera áfram með honum í liði. Ég treysti honum mikið sem markverði."

FH stefnir auðvitað á það að gera betur í sumar en þeir gerðu í fyrra. „Við höfum verið að æfa vel og erum að ná í góð úrslit á undirbúningstímabilinu en við getum samt bætt okkur mikið. Við eigum að gera betur en við gerðum á síðasta tímabili," sagði Dani Hatakka að lokum en hann kemur til með að spila stórt hlutverk í liði FH í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner