Fram hefur tekist að krækja í nýjan leikmann fyrir meistaraflokk kvenna sem spilar með liðinu í Bestu deildinni næsta sumar.
Hildur María Jónasdóttir er búin að skrifa undir tveggja ára samning en hún er öflugur miðjumaður, fædd 2002, sem kemur úr röðum FH.
Hildur er uppalin hjá Breiðabliki en hefur leikið fyrir FH og HK síðastliðin ár. Hún spilaði 8 leiki með HK í Lengjudeildinni í fyrra.
Til gamans má geta að Jónas Grani Garðarsson, sem varð markakóngur í efstu deild karla með Fram árið 2007, er faðir Hildar Maríu.
„Við hlökkum mikið til að fá Hildi til liðs við hópinn en hún er að ljúka háskólanámi í bandaríkjunum í vor og er þá komin alfarið heim," segir meðal annars í tilkynningu frá Fram.
Athugasemdir