Liverpool undirbýr tilboð í Kerkez - West Ham reynir að fá Gomes - Man Utd skoðar markverði
   fim 06. mars 2025 19:51
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Orri Steinn nálægt því að ráða úrslitum gegn Man Utd
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Lyon
Fyrstu leikjum dagsins er lokið í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar, þar sem Orri Steinn Óskarsson kom inn af bekknum í 1-1 jafntefli Real Sociedad gegn Manchester United.

Rauðu djöflarnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en sköpuðu ekki mikla hættu og var staðan markalaus í leikhlé. Joshua Zirkzee tók forystuna með skoti utan teigs sem virtist vera afar auðvelt viðureignar fyrir markvörð heimamanna, en reyndist það ekki.

Orra Steini var skipt inn af bekknum á 63. mínútu og gerði Mikel Oyarzabal jöfnunarmark fyrir heimamenn skömmu síðar úr vítaspyrnu eftir að Bruno Fernandes fékk boltann í hendi eftir hornspyrnu. Orri Steinn fékk svo dauðafæri til að taka forystuna en klúðraði af fimm metra færi.

Heimamenn í liði Sociedad voru sterkari aðilinn á lokakaflanum en tókst ekki að gera sigurmark. André Onana varði vel frá Orra Steini sem átti flotta marktilraun í uppbótartíma. Viðureignin er því galopin fyrir seinni leikinn. Orri var afar líflegur eftir innkomuna af bekknum en er eflaust svekktur með að hafa ekki skorað sigurmarkið.

Tottenham heimsótti þá AZ Alkmaar til Hollands og var Troy Parrott, sem er uppalinn hjá Tottenham, á sínum stað í fremstu víglínu heimamanna´i liði AZ.

Parrott átti eftir að vera til ama strax í upphafi þegar AZ fékk hornspyrnu. Boltinn barst til Parrott sem reyndi að setja hann aftur fyrir markið, en Lucas Bergvall komst fyrir boltann og reyndi að hreinsa. Sú tilraun mistókst herfilega þar sem Svíinn efnilegi endaði á að skora afar skrautlegt sjálfsmark.

AZ var talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og komst nálægt því að skora tvö mörk til viðbótar, en tókst ekki. Síðari hálfleikurinn var afar bragðdaufur með lítið af færum og urðu lokatölur 1-0 fyrir AZ. Óvænt tap hjá Tottenham en liðið getur enn komist áfram með góðum sigri í seinni leiknum á heimavelli.

Lærisveinar José Mourinho mættu þá til leiks á heimavelli gegn skoska stórveldinu Rangers sem er nýbúið að reka þjálfarann sinn. Barry Ferguson stýrir liðinu til bráðabirgða.

Fenerbahce stjórnaði spilinu á heimavelli en Rangers beittu gríðarlega hættulegum skyndisóknum og voru gestirnir búnir að taka forystuna strax á sjöundu mínútu með marki frá Cyriel Dessers.

Varnarmaðurinn Alexander Djiku jafnaði fyrir Fenerbahce en Vaclav Cerny tók forystuna á ný fyrir leikhlé, eftir undirbúning frá Dessers.

Fenerbahce tók að sækja stífar í seinni hálfleik en skildi eftir glufur í vörninni sem Dessers var nálægt því að nýta. Dessers kom boltanum í netið á 51. og 58. mínútu en ekki dæmt mark vegna rangstöðu.

Fenerbahce átti í miklum erfiðleikum með að skapa færi og var refsað á 81. mínútu þegar Cerny innsiglaði sigur Rangers. Niðurstaðan óvæntur 1-3 sigur Rangers á erfiðum útivelli.

Lyon sigraði að lokum Steaua í Búkarest en staðan var jöfn 1-1 allt þar til á lokamínútunum. Hinn bráðefnilegi Malick Fofana skoraði þá tvennu eftir stoðsendingar frá Rayan Cherki.

Real Sociedad 1 - 1 Manchester Utd
0-1 Joshua Zirkzee ('57 )
1-1 Mikel Oyarzabal ('70 , víti)

AZ 1 - 0 Tottenham
1-0 Lucas Bergvall ('18 , sjálfsmark)

Fenerbahce 1 - 3 Rangers
0-1 Cyriel Dessers ('7 )
1-1 Alexander Djiku ('30 )
1-2 Vaclav Cerny ('42 )
1-3 Vaclav Cerny ('81 )

Steaua 1 - 3 Lyon
0-1 Nicolas Tagliafico ('30 )
1-1 Alexandru Baluta ('68 )
1-2 Malick Fofana ('86 )
1-3 Malick Fofana ('89 )
Athugasemdir
banner
banner
banner