Árni Vilhjálmsson hefur undanfarið æft með KR en hann sást á mynd sem KR-ingar birtu á samfélagsmiðlum sínum á dögunum. KR hefur síðustu daga æft á nýju gervigrasi sínu á Meistaravöllum fyrir fyrsta leikinn þar gegn Breiðabliki um helgina.
Árni er uppalinn Bliki en hann hefur undanfarið spilað í neðri deildum í Sádi-Arabíu. Kona hans, Sara Björk Gunnarsdóttir, hefur líka spilað þar í landi.
„Árni hafði samband við mig um síðustu helgi og spurði hvort að hann mætti ekki æfa með okkur," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, við Fótbolta.net í dag.
Óskar þjálfaði Árna hjá Breiðabliki fyrir nokkrum árum.
„Breiðablik er að æfa lítið þessa dagana á meðan þeir eru í Evrópukeppni. Við getum haldið úti ágætis æfingum þar sem langt er á milli okkar leikja. Hann er góður drengur og frábær leikmaður," sagði Óskar.
Það er hins vegar ólíklegt að Árni sé að snúa aftur heim á þessum tímapunkti.
Athugasemdir