
HK er búið að bæta við sig öflugum miðjumanni fyrir seinni hluta tímabilsins í Lengjudeild kvenna.
Klara Mist Karlsdóttir kemur á lánssamningi frá Þrótti Reykjavík en hún er fædd 2003 og uppalin hjá Stjörnunni.
Hún er með 24 leiki að baki í efstu deild og 12 leiki í næstefstu deild og gæti reynst dýrmæt fyrir Kópavogsstelpurnar.
„Við bjóðum hana velkomna í HK og hlökkum til með að fylgjast með henni í rauðu og hvítu HK treyjunni," segir meðal annars í tilkynningu frá HK.
Klara er komin með leikheimild og fékk að spila síðustu 20 mínúturnar í 4-1 sigri gegn KR í gærkvöldi. HK er í toppbaráttu Lengjudeildarinnar og situr í öðru sæti þar, sex stigum á eftir toppliði ÍBV.
Athugasemdir