Nökkvi Þeyr Þórisson gekk í sumar alfarið í raðir hollenska félagsins Sparta Rotterdam. Dalvíkingurinn hafði komið á láni til félagsins frá St. Louis City í Bandaríkjunum í janúar og nýtti hollenska félagið sér kaupmöguleika í lánssamningnum í sumar.
Nökkvi, sem er 25 ára, hefur leikið erlendis sem atvinnumaður frá haustinu 2022. Hann var keyptur til Beerschot í Belgíu eftir að hafa raðað inn mörkum með KA og sumarið 2023 var hann keyptur til St. Louis. Hann ræddi við Fótbolta.net um skiptin.
Nökkvi, sem er 25 ára, hefur leikið erlendis sem atvinnumaður frá haustinu 2022. Hann var keyptur til Beerschot í Belgíu eftir að hafa raðað inn mörkum með KA og sumarið 2023 var hann keyptur til St. Louis. Hann ræddi við Fótbolta.net um skiptin.
„Það er mjög góð tilfinning að vera alfarið orðinn leikmaður Sparta, mér og fjölskyldunni líður mjög vel í Rotterdam og erum mjög spennt fyrir komandi árum. Ég er mjög sáttur með þann stað sem ég er á núna á ferlinum, frábær staður og umhverfi til þess að bæta sig og taka næsta skref," segir Nökkvi.
Höfðu lengi fylgst með Nökkva
Hvernig kom Sparta upp sem möguleiki í janúar?
„Sparta hefur fylgst með mér lengi og vissu af mér. Það varð svo ljóst að ég vildi fara í janúar og Bjarki (Már Ólafsson) umboðsmaðurinn minn fór að skoða valmöguleika, þá komu þeir á borðið og mér leist vel á. Þaðan fór allt af stað."
„Ég hefði viljað spila meira fyrsta hálfa tímabilið en það voru ákveðnir hlutir sem urðu til þess að það var ekki og ég sýndi því fullan skilning. En maður vill samt alltaf spila alla leiki það breytist ekki," segir Nökkvi sem kom við sögu í tólf leikjum, öllum sem varamaður, en tókst að skora tvö mörk í tveimur sigurleikjum.
Hann segist hafa vitað af því í apríl að Sparta myndi reyna að kaupa sig. „Það var í lok apríl, þá vissi ég að þeir myndu reyna allt sem þeir gætu til þess að kaupa mig og svo kláraðist það loksins í byrjun júní."
Einfaldlega lærdómsríkur tími
Nökkvi var í tvö ár á mála hjá St. Louis City og var spurður út í tímann hjá félaginu. Nökkvi svaraði einfaldlega: „Tíminn minn í St Louis var lærdómsríkur."
Farinn að spila sem fremsti maður
Hann var í kjölfarið spurður út í síðustu ár, frá því að hann fór frá KA.
„Mikill lærdómur, sérstaklega síðustu tvö ár. Það hefur líka orðið breyting á mér sem leikmanni, fer úr því að vera úti vinstra megin í það að spila striker, sem fremsti maður, þar sem ég hef algjörlega fundið mig. Mér finnst skemmtilegast að spila þar og mínir styrkleikar nýtast best í þeirri stöðu."
Stefnt á Sambandsdeildarumspilið
Deildin í Hollandi hefst eftir tvær vikur. Sparta endaði í 12. sæti á síðasta tímabili. Hver er stefnan hjá Sparta?
„Hún er sú sama og hefur verið undanfarin ár, að ná umspilssæti fyrir Sambandsdeildina og ná alla leið þar." Sparta var fjórum stigum frá því að komast í Sambandsdeildarumspilið í fyrra, en liðin í 6.-9. sæti spila þar um eitt sæti í þeirri keppni.
Kristian hefur allt
Nökkvi lék með landsliðsmanninum Kristian Nökkva Hlynssyni hjá Sparta síðasta hálfa árið. Kristian var á láni frá Ajax og var í sumar keyptur til Twente. Hversu öflugur er Kristian?
„Það var frábært að hafa Kristian innan sem utan vallar. Kristian hefur allt til þess að spila á hæsta stigi, frábæran leikskilning og ákvarðanatakan er frábær," segir Nökkvi.
Athugasemdir