Viðar Örn Kjartansson spilaði sinn fyrsta leik fyrir KA í dag þegar liðið gerði jafntefli gegn HK í 1. umferð Bestu deildarinnar á Akureyri í dag.
Lestu um leikinn: KA 1 - 1 HK
„Mér fannst við vera töluvert sterkara lið. Þeir eru seigir í því sem þeir eru að gera. Við sköpuðum okkur, ég veit ekki hvað mörg færi en nýttum þau ekki nógu vel. Við áttum klárlega að vinna leikinn í dag ef þú horfir á færin," sagði Viðar Örn.
KA menn óðu í færum á tímabili í leiknum og Viðari fór að klæja í tærnar að koma inn á.
„Já að sjálfsögðu en það var ákveðið fyrir leikinn að ég myndi ekki spila meira en 15-20 mínútur. Ég er að æfa að hörku til að komast í leikform og vera klár í næsta leik," sagði Viðar Örn.
„Það var frábær tilfinning (að koma inná). Það hefði verið skemmtilegra ef við hefðum náð að pota inn einu í restina og unnið. Það var ekki létt að koma inn á, það var kalt á bekknum. Gott að ná nokkrum mínútum núna og vonandi verða þær fleiri næst."