„Við spiluðum frábæran fótboltaleik," sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA eftir jafntefli gegn HK í dag.
„Skorum í fyrri hálfleik og sköpuðum urmul af færum. Maður er svekktur með úrslitin en spiluðum frábæran leik, ég hefði viljað skora svona sjö til átta mörk."
Lestu um leikinn: KA 1 - 1 HK
Haddi kýs að horfa á leikinn með jákvæðum augum og segir að frammistaða liðsins hafi verið sú besta í langan tíma.
„Svona er stundum fótboltinn. Maður getur litið á þetta með jákvæðum eða neikvæðum augum. Ef þú vilt vera neikvæður þá fengum við eitt stig, áttum miklu miklu meira skilið. Jákvætt er að frammistaðan var frábær og ef við spilum svona áfram fáum við fullt af stigum," sagði Haddi.
Viðar Örn Kjartansson spilaði sinn fyrsta leik fyrir KA í dag eftir að hafa gengið til liðs við félagið á dögunum en hann lék síðast með CSKA 1948 í Búlgaríu.
„Hann er ótrúlega flottur og duglegur, æfir tvisvar á dag. Hann er á eftir öðrum í formi og við erum að koma honum skynsamlega inn. Hann fékk korter í dag og líður vel eftir það. Hann kemst smám saman í form og þá vitum við hvað hann getur," sagði Haddi.