fös 07. maí 2021 16:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þórir Jóhann frábær á miðjunni - „Er hann ekki alltaf í byrjunarliðinu?"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Þórir Jóhann Helgason átti glimrandi leik þegar FH lagði Fylki í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar síðasta laugardag.

Þórir átti sendinguna inn á Jónatan Inga Jónsson sem fiskaði svo víti í kjölfarið og Þórir átti stoðsendingu á Matthías Vilhjálmsson sem innsiglaði 2-0 sigur Hafnfirðinga.

Þórir er tvítugur miðjumaður og spilaði einn leik þegar íslenska U21 landsliðið keppti í lokakeppni Evrópumótsins í mars. Það er mikil samkeppni um stöður á miðjunni hjá FH. Liðið var með reynsluboltann Björn Daníel Sverrisson á bekknum í síðasta leik og hinn efnilega Baldur Loga Guðlaugsson einnig. Inn á byrjuðu Eggert Gunnþór Jónsson og Ágúst Eðvald Hlynsson með Þóri Jóhanni.

Þórir var valinn maður leiksins hér á Fótbolta.net.

„Var frábær á miðjunni hjá FH. Átti stoðsendingu í markinu hans Matta Villa og átti einnig sendinguna sem sprengdi upp vörn Fylkis þegar Jónatan Ingi sótti vítið," skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson í skýrslu sína eftir leik.

„Við þurfum að nefna Þóri Jóhann Helgason sem á þessar lykilsendingar. Geggjaðar báðar, sendinguna sem sprengdi upp vörnina og bjó til vítið og stoðsendinguna á Matta," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu eftir síðustu umferð.

„Það eina sem er skemmtilegra en að sjá svona góða gæja eins og Matta koma heim og standa undir pressunni er þegar ungu leikmennirnir standa undir 'hypei'. Það er búið að vera hype í kringum Þóri sem hann hefur skapað sjálfur með flottri frammistöðu í fyrra. Þórir var hrikalega flottur í þessum leik og þessir síðustu 10-13 mánuðir hafa verið rock-solid hjá honum og bæting nánast leik frá leik," sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Er ekki Þórir Jóhann alltaf í byrjunarliðinu? Þeir eru með fimm gæja sem geta spilað á miðjunni og er einhver annar að fara taka af honum stöðuna?" spurði Tómas.

„Ég sé það ekki, allavega ekki ef hann heldur áfram að spila svona. Þá gefur hann ekki færi á því," sagði Elvar.

FH mætir Val á sunnudag í annarri umferð deildarinnar. Hlusta má á Innkastið hér að neðan.
Innkastið - Nýr leikur en sömu úrslit þegar Rúnar mætir Óskari
Athugasemdir
banner
banner
banner