Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 07. júní 2021 11:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Draumur Katar þríeykisins að vinna áfram saman
Heimir Hallgrímsson og Bjarki Már Ólafsson.
Heimir Hallgrímsson og Bjarki Már Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir í Katar.
Heimir í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Heimir Hallgrímsson og íslensku aðstoðarmennirnir hans tveir hjá Al Arabi hafa áhuga á því að starfa áfram sem teymi hjá öðru félagi. Þetta kom fram hjá Frey Alexanderssyni í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn.

Freyr var aðstoðarþjálfari Heimis ásamt Bjarka Má Ólafssyni og segist hafa feikilega trú á samstarfi þeirra þriggja. Þeir létu af störfum hjá Al Arabi eftir nýliðið tímabil.

„Við erum opnir fyrir því að fara saman og viljum það ef eitthvað geggjað kemur upp. Við vorum að vinna þetta eftir skandinavíska mótelinu, Bjarki er leikgreinandinn en var alltaf á æfingasvæðinu og vissi alltaf hvað var að gera," segir Freyr.

„VÉg var svo aðstoðarmaður Heimis, hann með sína kosti og ég með mína. Það væri draumur ef við gætum unnið áfram saman. Við erum bæði að reyna að selja okkur sem teymi og erum líka opnir fyrir því sem við getum gert sem einstaklingar."

Freyr segir þá þrjá þó alls ekki útiloka það að halda í sitthvora áttina, það fer einfaldlega eftir því hvernig málin þróast.

„Við erum að skoða það sem er í boði. Þetta er mjög erfiður markaður. Ég vil vinna í spennandi umhverfi og það getur verið hvar sem er í heiminum. Ég elska að vinna með metnaðarfullu fólki sem gefur mér orku á hverjum degi. Það er kraftur og orka í gangi. Það er það sem ég er að leita eftir í dag," segir Freyr.

„Fótbolti snýst alltaf um tímasetningar og við getum ekki bara beðið í 12-18 mánuði eftir að eitthvað komi upp þar sem við förum þrír saman. Ef það kemur eitthvað upp hjá mér sem ég vil fara í þá upplýsi ég þá um það og öfugt."

Einhverjar þreifingar hafa þegar átt sér stað.

„Það er búið að heyra eitthvað í okkur en sumt er alveg út úr kortinu. Þetta er þreytandi. Þetta er eins og þegar silly seasonið er, það fer eitthvað af stað en svo er þetta algjör monkey bisness. Svo er eitthvað sem hefur ekki náð að hreyfa við manni," segir Freyr.

Heimir gjörsamlega með allt félagið
Freyr segir að Heimir hafi breytt gríðarlega miklu hjá Al Arabi á meðan hann starfaði þar. Þó gengið hafi stundum verið upp og niður voru menn alveg með Heimi og hans hugmyndafræði.

„Ég fann það strax þegar ég kom að hann var gjörsamlega með allt félagið, búinn að selja þeim vinnubrögðin sín og 'conceptið'. Hann er náttúrulega sterkur leiðtogi og ég held að það hafi fyrst og fremst hjálpað honum. Við vorum að vissu leyti heppnir með yfirmann fótboltamála. Hann var frekar jarðbundinn náungi," segir Freyr.

Yfirmenn fótboltamála í Katar eru allir heimamenn og segir Freyr að þeirra yfirmaður hafi verið talsvert jarðbundnari en hjá mörgum öðrum félögum í landinu.

„Það er rosalega mikið um það að þeir sem stjórna fari eftir því hvað er verið að segja á samfélagsmiðlum og hlaðvarpsþáttum. Það er bara fáránlegt. Við náttúrulega skiljum ekki orð af því og vitum ekkert hvað er í gangi en það er það sem að þeir segja okkur þarna. Okkar yfirmaður fótboltamála var hinsvegar alveg pollrólegur."
Útvarpsþátturinn - Freysi og öll helstu fótboltamálin
Athugasemdir
banner
banner
banner