Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
   mið 07. ágúst 2024 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Gyrðir kominn heim í KR: Spenntur að klæðast treyjunni aftur og spila fyrir merkið
Ástbjörn og Gyrðir eru mættir í KR.
Ástbjörn og Gyrðir eru mættir í KR.
Mynd: KR
Í leiknum gegn Víkingi.
Í leiknum gegn Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Leikni.
Lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Leikni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur skorað eitt mark í sumar, skoraði gegn ÍA í uppbótartíma og tryggði FH eitt stig.
Hefur skorað eitt mark í sumar, skoraði gegn ÍA í uppbótartíma og tryggði FH eitt stig.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Á Heimi mikið að þakka.
Á Heimi mikið að þakka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék undir stjórn Óskars í 2. flokki KR.
Lék undir stjórn Óskars í 2. flokki KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég vildi spila aðeins meira og ég sé tækifæri á því hjá KR'
'Ég vildi spila aðeins meira og ég sé tækifæri á því hjá KR'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær varð ljóst að þeir Ástbjörn Þórðarson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson væru orðnir leikmenn KR og Kristján Flóki Finnbogason orðinn leikmaður FH. Leikmennirnir eru því allir komnir aftur í sín uppeldisfélög.

Sá eini af þeim sem hefur spilað í undanförnum leikjum er Gyrðir og ræddi hann við Fótbolta.net í dag.

„Það er virkilega gott að vera kominn aftur í uppeldisfélagið, virkilega gott að vera kominn heim. Ég þekki allt hérna, hvern einasta mann," segir Gyrðir.

„Ég æfði með liðinu í hádeginu. Það var virkilega gott að hitta strákana og þjálfarana, komast inn í klefann og inn í hlutina."

Gyrðir er 25 ára og er fjölhæfur leikmaður; getur leyst margar stöður. Hann verður í leikmannahópnum hjá KR gegn HK og spilar þá líklega sinn fyrsta meistaraflokksleik með KR. Gyrðir er fæddur árið 1999 og eftir tímabilið 2018 í 2. flokki KR hélt hann í Leikni þar sem hann var í fjögur tímabil. Hann fór í kjölfarið í FH þar sem hann gerði tveggja ára samning og átti sá samningur að renna út í lok þessa tímabils.

Rétt niðurstaða á þessum tímapunkti ferilsins
Gyrðir fór aðeins yfir aðdragandann að félagaskiptunum í KR.

„KR hafði samband við mig þegar minna en sex mánuðir voru eftir af samningi mínum við FH og létu vita af áhuga á mér. Það var gaman að heyra, ég sagði þeim að ég hefði alveg áhuga á heimkomu í KR, en einbeitingin væri öll á FH á þeim tímapunkti. Ég vildi fá að heyra hvað FH-ingarnir væru að hugsa og fór á fundi með báðum félögum."

„Þetta varð svo niðurstaðan hjá okkur. FH vildi alveg halda mér áfram. Ég þurfti að taka mjög erfiða ákvörðun og ég gerði það í samráði við fjölskyldu, kærustu og fleiri í kringum mig. Þetta var niðurstaðan sem okkur fannst rétt á þessum tímapunkti á mínum ferli."

„Þetta er að sjálfsögðu uppeldisfélagið, það að uppeldisfélagið kalli mann til baka - það er alltaf smá rómantík í því."

„Ég vildi spila aðeins meira og ég sé tækifæri á því hjá KR. Það spilar líka inn í, ég er á þeim stað á ferlinum að mig langar að spila aðeins meira."


Á Heimi og öllum FH-ingum mikið að þakka
Gyrðir hefur mikið verið í því að koma inn sem varamaður hjá FH og hefur leyst það hlutverk virkilega vel.

„Ég er virkilega ánægður með tímann minn hjá FH og það sem ég gerði hjá félaginu. Ég á öllum FH-ingum mikið að þakka, bæði stuðningsmönnum og náttúrulega þjálfarateyminu. Ég á Heimi mikið að þakka, hann er algjör toppþjálfari og hefur kennt mér gríðarlega margt; bæði sem fótboltamaður og sem persóna."

Ánægður með staðinn sem hann skilur FH á
„Ég kem inn í svolítið brotið FH lið, lið sem var hársbreidd frá því að falla tímabilið á undan. Það eru alvöru breytingar þegar ég kem og núna er ég að skilja við liðið í 3. sæti. Ég myndi segja að okkar vegferð hafi verið mjög góð. Ég er virkilega ánægður með þetta og vona að FH gangi sem allra best að ná sínum markmiðum."

Vissu að Gyrðir myndi skila sinni vakt sama hvað
Gyrðir spilaði á móti Víkingi á mánudag vitandi að það væri hans síðasti leikur fyrir FH. Hvernig var að koma inn í þann leik?

„Það var ekkert mál. Ég var alltaf einbeittur á FH, liðið er með markmið og ég var alltaf staðráðinn í því að hjálpa FH í að ná því markmiði. Það skipti mig engu máli að ég vissi að ég væri að fara. Heimir og Kjartan vissu líka að ég myndi skila minni vakt alveg sama hvað, og ég sagði það líka við þá."

Síðustu vikur, á meðan félagaskiptin voru í ferli, truflaði eitthvað óvissan um hvort þú færir eftir tímabilið eða strax í glugganum?

„Nei, í rauninni ekki. Ég var alltaf einbeittur á FH og markmið liðsins. Ég var peppaður í klára tímabilið með FH sem er að gera mjög gott mót. Það eina kannski sem truflaði var að manni finnst leiðinlegt að sjá KR í basli."

Skoraði sjö mörk á síðasta tímabili
Á síðasta tímabili átti Gyrðir kafla á tímabilinu þar sem hann var að skila talsvert af mörkum fyrir FH liðið. Komstu sjálfum þér á óvart?

„Ég átti hrikalega gott tímabil í fyrra og skoraði fullt af mikilvægum mörkum fyrir FH-ingana. En nei, ég myndi ekki segja að ég hafi komið mér á óvart. Ég hef alltaf verið mjög lunkinn við að skora í öllum þeim liðum sem ég hef verið."

Gyrðir vonaðist til þess að vera í stærra hlutverki hjá FH á þessu tímabili. „Í fyrra átti ég gott tímabil og hjálpaði liðinu mikið. Mig langaði að vera í stærra hlutverki en ég fékk ekki það hlutverk á þessu tímabili. Það spilaði smá inn í þeirri ákvörðun að fara annað til að fá meira að spila."

„Á móti kemur þá er FH með hrikalega flottan hóp, hrikalega flottir strákar; góðir leikmenn í öllum stöðum. Heimir er með mjög flottan hóp og maður skilur alveg að það er mikil samkeppni um stöðu í liðinu."


Kvaddi liðsfélagana eftir Víkingsleikinn
Var erfitt að kveðja liðsfélagana?

„Það var auðvitað mjög erfitt. Ég hef eignast hrikalega góða vini þarna og hópurinn hjá FH er mjög samstilltur og góður, það er búið að mynda góðan kjarna í FH og FH-ingar geta verið ánægðir með það. Ég hélt hjartnæma ræðu beint eftir tapleik, það var auðvitað mjög erfitt. Strákarnir skildu þetta svo sem allir og við erum áfram mjög góðir vinir."

Verið með KR treyjuna upp í skáp í 25 ár
Hvernig heldur þú að það verði að klæðast KR treyjunni?

„Ég er mjög spenntur að klæðast treyjunni aftur. Ég ólst upp í þessari treyju og hef verið með hana uppi í skáp hjá mér í 25 ár. Það verður mjög gott að komast í hana aftur, spila fyrir merkið og spila fyrir klúbbinn."

Vill vera partur af því að koma KR aftur á góðan stað
Hjá KR hittir Gyrðir fyrir Óskar Hrafn Þorvaldsson sem þjálfaði hann á sínum tíma í 2. flokki KR. Hefur það mikið að segja að hann vilji fá þig aftur í félagið?

„Já, algjörlega. Hann talaði við mig sem yfirmaður fótboltamála og sagði mér hvernig hann sæi þetta fyrir sér. Framtíðarplön KR eru mjög áhugaverð og þetta er verkefni sem ég er mjög hrifinn af og vil vera partur af því að koma klúbbnum aftur á þann stað sem við viljum hafa hann."

Mikilvægast að fá leikmenn sem þekkja að vinna
KR hefur verið orðað við fleiri leikmenn sem léku undir stjórn Óskars í 2. flokki KR.

„Maður hefur heyrt einhverjar sögusagnir um fleiri leikmenn, maður veit ekki allt, en þetta eru auðvitað strákar sem ég ólst upp með. Þessi árgangur vann allt sem hægt var að vinna í gegnum yngri flokkana. Það er erfitt að finna leikmenn sem þekkja sigurhefð, vita hvernig á að vinna og hvernig tilfinningin er að vinna oft. Ég held að það sé það mikilvægasta, að fá stráka sem þekkja það að vinna. Ég held það sé virkilega gott fyrir klúbbinn að búa til alvöru kúltúr aftur hjá klúbbnum - þann sigurkúltúr sem á alltaf að vera í KR," segir Gyrðir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner