Hallgrímur Mar Steingrímsson leikmaður KA var sáttur með sigur liðsins gegn HK í síðasta leik tímabilsins en hefði þó viljað vinna stærra.
Lestu um leikinn: KA 1 - 0 HK
„Fínt að klára þetta með sigri þótt ég hefði viljað setja fleiri mörk. 1-0 og leikur sem var ekki spilað mikið upp á en það var fínt að slútta þessu," sagði Hallgrímur.
Hann er svekktur með árangur liðsins í deildinni.
„Þetta var gaman meiri hlutann, fara í bikarúrslit og Evrópa var fín. Ef ég horfi á það var gaman en deildin fyrir mig var vonbrigði. Ég tel við vera með miklu betra lið en að enda í 7. sæti og með betra lið en sum í efri hlutanum. Ef maður lítur til baka eftir nokkra mánuði þá verður maður kannski ánægður að hugsa til Evrópu og bikarúrslitanna," sagði Hallgrímur.
Hallgrímur var með 13 stoðsendingar á tímabilinu sem er jöfnun á meti í efstu deild. Hann reyndi hvað hann gat að ná í fjórtándu stoðsendinguna í dag.
„Það gekk ekki og ég á eftir að láta suma félaga mína heyra það að klára ekki færin sem ég bjó til fyrir þá. Ég er stoltur að hafa náð að jafna það," sagði Hallgrímur.
KA tók á móti Forsetabikarnum í leikslok.
„Ég átti von á Hjörvari (Hafliðasyni) hingað, hann var eiginlega búinn að lofa mér því en ég verð bara að hitta hann seinna," sagði Hallgrímur.