Man Utd og Chelsea leiða baráttuna um 63 milljóna punda Gyökeres - United hefur áhuga á Goretzka og Sane - Samningi Neymar gæti verið rift
   fim 07. nóvember 2024 12:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Raggi Sig tekur við U17 hjá AGF á nýju ári (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
AGF hefur tilkynnt að Ragnar Sigurðsson sé að taka við sem þjálfari U17 ára liðs danska félagsins. Ragnar hefur störf á nýju ári. Fótbolti.net fjallaði um viðræður milli aðilanna í gær og er nú búið að tilkynna að ráðningin sé frágengin.

Ragnar tekur við af Niklas Backman sem verður 'transition' þjálfari hjá félaginu, aðstoðar efnilega leikmenn í að taka skrefið upp í aðalliðið. Backman er fyrrum sænskur landsliðsmaður og var á sínum tíma fyrirliði AGF.

„Þetta var gott ferli þar sem Ragnar, m.a., kom í heimsókn með fjölskyldu sinni. Hann er með öflugan prófíl og með reynslu sinni á hæsta stigi þá hefur hann upp á mikið að bjóða. Við höfum verið ánægðir með Niklas og vildum fá svipaðan prófíl og teljum okkur hafa fundið það í Ragnari. Hann er að klára sitt þjálfaranám og sér AGF sem réttan stað fyrir sig eftir nokkur ár sem þjálfari í efstu deild á Íslandi þar sem hann hefur hjálpað ungum leikmönnum að fá tækifæri," segir Marc Söballe hjá AGF.

Ragnar var aðstoðarþjálfari Fram fyrri hluta tímabilsins 2023 en tók svo við liðinu þegar Jón Sveinsson var látinn fara. Hann var svo aðstoðarþjálfari HK á nýliðnu tímabili.

Raggi þekkir vel til í Danmörku því hann lék á sínum ferli 110 leiki fyrir FC Kaupmannahöfn og varð þar Danmerkurmeistari og bikarmeistari.

Landsliðsmaðurinn Mikael Anderson er leikmaður AGF og unglingalandsliðsmennirnir Sölvi Stefánsson og Tómas Óli Kristjánsson eru í akademíu danska félagsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner