Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 07. nóvember 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Steini Halldórs: Það er hægt að horfa á þetta á tvo vegu
Spila væntanlega heimaleiki sína á Kópavogsvelli eins og áður
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það var dregið í riðla fyrir Þjóðadeildina í dag.
Það var dregið í riðla fyrir Þjóðadeildina í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland er í riðli með Frakklandi, Noregi og Sviss.
Ísland er í riðli með Frakklandi, Noregi og Sviss.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta eru hörkulið allt saman og það var vitað fyrirfram að þetta yrðu allt erfiðir leikir," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, í samtali við Fótbolta.net.

Fyrr í dag var dregið í Þjóðadeildina en Ísland er í riðli með Frakklandi, Noregi og Sviss.

„Frakkar eru með mjög gott lið og eitt það allra besta í Evrópu, Noregur hefur verið að bæta sig mikið undanfarið og Sviss er lið sem er líka í framför en þær verða á heimavelli á EM næsta sumar. Þetta er hörkuriðill og þegar maður horfir á þessi þrjú lið, þá er þetta engir óskamótherjar."

Keppnin verður leikin í febrúar, apríl og maí/júní landsliðsgluggunum, en Ísland var í öðrum styrkleikaflokki.

Þetta verður góður undirbúningur fyrir íslenska liðið fyrir EM í Sviss næsta sumar en þessi keppni tengist líka inn í undankeppni HM 2027. Lokaniðurstaðan í þessari Þjóðadeild mun ráða fyrir um það í hvaða flokki Ísland verður fyrir undankeppni HM 2027. Því betri árangur í Þjóðadeildinni, því mun meiri möguleikar á lokakeppni HM.

„Auðvitað er þetta ákveðinn undirbúningur fyrir EM. Við gætum lent með einhverjum af þessum liðum í riðli þar líka. Þetta er alveg fínn undirbúningur fyrir það þó þetta sé forkeppni fyrir undankeppni HM. Það er hægt að horfa á þetta á tvo vegu. Við munum örugglega gera það þannig, þetta eru mikilvægir leikir. Þetta er gott og krefjandi verkefni," segir Þorsteinn.

Ísland á þrjá heimaleiki í þessum riðli en ólíklegt er að nokkur þeirra geti farið fram á Laugardalsvelli þar sem verið er að leggja nýtt undirlag á hann. Þorsteinn reiknar með því að íslenska liðið fari á Kópavogsvöll eins og áður hefur verið gert þegar liðið hefur ekki getað spilað á Laugardalsvelli. Þar hefur íslenska liðinu gengið vel.

Margt jákvætt gegn Bandaríkjunum
Það er ekki langt síðan Ísland spilaði tvo vináttulandsleiki gegn Bandaríkjunum, sterkasta liði heims. Það var margt jákvætt hægt að taka úr þeim leikjum þó þeir hafi báðir tapast.

„Ég er nokkuð sáttur. Mér fannst margt heppnast af því sem við vorum að gera og ætluðum að gera. Við vorum alveg að halda í við þær og þær voru ekkert að opna okkur eða búa til mikið af dauðafærum," segir Þorsteinn.

„Við fáum á okkur fimm mörk á síðustu tíu mínútunum í þessum leikjum og við þurfum aðeins að setjast yfir það. Partur af því er líka að við erum að gera mikið af breytingum og rótera mikið. Við breyttum því ekkert þó við værum að spila vel. Flestar breytingarnar vorum við búin að ákveða fyrirfram."

„Það sem maður tekur mest út úr þessu er að þó við höfum gert mikið af breytingum, þá höfðu þær ekki neikvæð áhrif á spilamennskuna. Það voru nokkrir leikmenn sem sýndu fram á að þær eru klárar á að fá fullt af mínútum. Í næsta glugga þurfa leikmenn líka sýna að þær eru áfram tilbúnar og ýta við manni. Það er það jákvæða sem ég sá, að það er meiri breidd en við höfum oft verið með áður."

Besti miðvörður í heimi
Fyrir stuttu var það opinberað að Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands, væri besti miðvörður í heimi en hún var efst í þeirri stöðu á Ballon d'Or verðlaununum. Þorsteinn var að lokum spurður út í það.

„Já, það er bara frábært. Hún er vel að þessu komin og hefur staðið sig gríðarlega vel. Þetta er flott fyrir íslenskan kvennafótbolta, að það sé leikmaður frá okkur í þessum gæðaflokki. Það er virkilega gleðilegt fyrir alla og sérstaklega hana," sagði landsliðsþjálfarinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner