Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 08. febrúar 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fékk gullskóinn sem markvörður 2013 - Vann svo stóru titlana
Sonný Lára Þráinsdóttir.
Sonný Lára Þráinsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Fjölni.
Í leik með Fjölni.
Mynd: Björn Ingvarsson
Á landsliðsæfingu.
Á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Breiðabliki síðasta sumar þar sem liðið varð Íslandsmeistari.
Í leik með Breiðabliki síðasta sumar þar sem liðið varð Íslandsmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir segir að skórnir og hanskarnir séu komnir býsna langt upp á hillu.

Það var tilkynnt snemma í janúar að Sonný hefði ákveðið að spila sinn síðasta leik fyrir Breiðablik en hún hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár.

Frá því hin 34 ára gamla Sonný kom í Kópavoginn frá Fjölni fyrir sjö árum spilaði hún 209 leiki fyrir Blika, vann þrjá Íslandsmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla og var hún fastamaður í A-landsliðshópnum.

Sonný mætti í hlaðvarpsþáttinn Heimavöllinn á dögunum og fór yfir margt og mikið.

„Hefði EM verið í sumar, þá hefði ég klárlega tekið eitt tímabil í viðbót," sagði Sonný. „Þetta (síðasta tímabil) var ótrúlega skemmtilegt tímabil og það gekk vel þrátt fyrir þetta Covid ævintýri. Mér gekk sjálfri vel. Ég var ekki mjög ánægð með tímabilið 2019 þannig að þá var ég ekki tilbúin að hætta. Ég er sátt að geta hætt á toppnum; ég get gengið sátt frá borði."

Byrjaði í marki mjög seint
Sonný á mjög áhugaverðan feril að baki. Hún lék með Blikum, Fjölni, Aftureldingu/Fjölni og Haukum á sínum meistaraflokksferli. Hún var hins vegar ekki alltaf markvörður.

„Ef ég hugsa sjálf út í þetta, þá er þetta mjög skrautlegt. Ég fer ekki að æfa mark fyrr en 2006. Ég tók einn og einn leik 2004-05. Ég fer formlega að æfa mark fyrir tímabilið 2007. Fjölnir ætlaði að fá sér útlending í markið, við komumst upp í efstu deild 2006. Ég var í markinu í 1. deild en þá voru engar markmannsæfingar eða markmannsþjálfun, ég var bara að leika mér á æfingum."

„Ég og vinkona mín förum í spænskuskóla um haustið og komum á æfingu í janúar 2007. Ég kem bara á æfingu og er ekkert búin að æfa í þrjá mánuði. Ég segi við þjálfarann (Andrés Ellert Ólafsson) að ég ætli að æfa mark. Hann hafði enga trú á mér en lagði grunninn að þeim markverði sem ég er í dag, hann má eiga það."

„Hann þjálfaði mig, tók mig í gegn og gerði mig að góðum markverði. Ég spilaði í Landsbankadeildinni 2007," sagði Sonný sem fékk í fyrsta sinn þjálfun sem markvörður í kringum tvítugsaldur. Hún var kantmaður í yngri flokkum. „Ég var geggjuð á hægri kanti þó ég segi sjálf frá," sagði Sonný létt.

Markahæsti árið 2013
Hún stóð ekki bara alltaf í markinu og stundum skellti hún sér fram völlinn. Sumarið 2013 var hún markahæsti leikmaður Fjölnis í 1. deild kvenna.

Sonný fór í Hauka 2010 eftir að kvennalið Fjölnis var lagt niður. Það gekk ekki sérlega vel hjá Haukum og sneri hún aftur í lið Fjölnis fyrir tímabilið 2011. Hún var útispilari á æfingum hjá Fjölni 2011, var aldrei í marki en tók að sér að vera í marki í leikjunum. Hún samdi við þjálfarann um að vera í marki svo lengi sem hún fengi að taka víti og aukaspyrnur.

„Ég fékk gullskóinn eitt árið, ég var markahæst," sagði Sonný en hún var markahæsti leikmaður Fjölnis í 1. deildinni 2013 eins og áður kemur fram.

Hún var tilbúin með útileikmannstreyju númer eitt á varamannabekknum ef það þyrfti á henni að halda í sóknarleiknum.

„Það var treyja klár. Mér var hent út þarna. Ég man að það var leikur á móti Völsungi - minnir mig - það var 1-1 og við þurftum að vinna. Þá var mér hent fram. Þá þurfti ég að henda mér í gulu treyjuna og einhver önnur þurfti að fara í markið."

Langaði að sanna sig í efstu deild
Árið 2014 fór hún í eitt sterkasta lið landsins, Breiðablik; sem markvörður.

„Mér langaði að fara upp með Fjölni í efstu deild. Ég man þegar ég sat á Laugardalsvelli og var að horfa á bikarúrslitaleik Breiðabliks og Þórs/KA. Ég sagði við vinkonu mína að mig langaði að vinna svona titil. Ég sagði þetta."

„Það voru allir að segja við mig: 'Þú ert svo góð, af hverju ertu ekki í efstu deild?' Maður var að fá að heyra þetta. Ég held ég hafi ekki verið nægilega sjálfselsk. Ég var alltaf að hugsa um, ef ég fer hvað gerist þá? Þá verða þær ekki með markmann. Ég var alltaf í þessu. Það gerist allt af ástæðu, þetta átti bara að vera svona held ég."

„Haustið 2013, þá hugsaði ég að mig langaði að sanna fyrir mér - áður en ég hætti - að ég sé góð í marki. Það var ástæðan fyrir því að ég fór í Pepsi-deildina."

Hún fékk ekki að fara mikið fram hjá Breiðabliki þar sem hún vann fimm stóra titla eftir að hún varð 29 ára. Núna stefnir Sonný á þjálfun. „Ég get ekki hætt að vera í kringum þetta"
Heimavöllurinn - Markahæsti markvörðurinn kælir hanskana og 101 eignast fótboltalið
Athugasemdir
banner