Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson var ekki valinn í hóp Midtjylland sem vann Randers 2-1 í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld en óvænt fjarvera hans vekur mikla athygli en hann lenti í stympingum á æfingunni fyrir leikinn.
Mikael var lykilmaður í deildarsigri Midtjylland á síðustu leiktíð og var mikill áhugi á honum frá erlendum liðum.
Hann kom af bekknum gegn SönderjyskE í síðustu umferð en var ekki í leikmannahópnum í kvöld.
Brian Priske, þjálfari liðsins, ákvað að hafa Mikael og Sory Kaba utan hóps en valið á Kaba er eðlilegt. Hann er enn að ná sér eftir að hafa verið með kórónaveiruna og hefur gengið illa að koma sér í leikform en fjarvera Mikael var þó óvænt.
Samkvæmt Ekstrabladet þá var þetta ekki taktískt breyting hjá Priske heldur hafi Kaba og Mikael lent saman á æfingu fyrir leikinn og því ekki í hópnum.
„Ég vil nú ekki bæta miklu við annað en það að þeir voru ekki með í dag. Það er ekki flóknara en það. Það komu tveir aðrir í stað þeirra og eins og alltaf þá vel ég lið sem ég held að geti unnið leiki og okkur tókst það í kvöld," sagði Priske við Ekstrabladet.
„Allar ákvarðanir sem við tökum eru gerðar innan hópsins og við erum með öflugan og heilbrigðan hóp þegar það kemur að því að skapa góða samkeppni og hugarfar sigurvegara. Það fleytir okkur áfram," sagði hann í lokin.
Athugasemdir