Enska úrvalsdeildin ætlar að halda neyðarfund með öllum 20 félögum deildarinnar á næstunni til að ræða mögulegar reglubreytingar eftir sigur Manchester City í dómsal í gær. Ekki er um að ræða stóra dómsmálið sem er núna hafið gegn City sem felur í sér 115 kærur.
Málið núna snýr að reglum sem enska úrvalsdeildin setti í desember 2021 - eftir að moldríkir eigendur frá Sádi-Arabíu eignuðust Newcastle - sem fjalla um óraunhæfa styrki og auglýsingar frá fyrirtækjum í eigu sömu aðila og eiga félögin. Félögin geti ekki þannig gert óraunhæfa styrktarsamninga í gegnum eigendur og dælt þannig fjármunum í félögin til að komast fram hjá Financial Fair Play reglum.
Þessar reglur höfðu áhrif á City og styrktarsamninga félagsins. Englandsmeistararnir eru í eigu Sheik Mansour, varaforseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Óháður dómstóll dæmdi City í hag í gær og gæti það haft nokkur áhrif á ensku úrvalsdeildina. Þetta er þó ekki skýr sigur fyrir Man City þar sem að á sama tíma og City fagnaði sigri, þá fagnaði enska úrvalsdeildin líka þar sem aðeins tvær greinar í reglunum voru metnar ólögmætar.
City hafði stuðning frá Chelsea, Newcastle, Nottingham Forest og Everton í þessu máli. En stór félög á borð við Arsenal og Manchester United stóðu með ensku úrvalsdeildinni.
Enska úrvalsdeildin ætlar að halda neyðarfund með fulltrúum allra félaga deildarinnar þar sem rætt verður um niðurstöðu dómstólsins og mögulegar tilfæringar á reglunum vegna þessa. Reglurnar eru þó mikilvægar svo ekki skapist ósanngjarnt forskot út af fjármunum eiganda en það á eftir að koma í ljós hversu mikið þær munu breytast eftir dóminnn og hversu mikil áhrif það mun hafa.
Þessi dómur er samt sem áður enn ein vísbendingin um að það sé að myndast stríð á milli City og ensku úrvalsdeildarinnar. Stríð sem er að stigmagnast út af þeim 115 ákærum sem er núna verið að tækla í dómsal. Ákærurnar ná yfir fjórtán tímabil og snúast meðal annars um brot á reglum um útgjöld og að City hafi ekki veitt nákvæmar upplýsingar um fjárhagsmál sín. Möguleiki er á því að City verði dæmt niður um deildir ef sekt er sönnuð.
Athugasemdir