Erik Ten Hag, stjóri Man Utd, greindi frá því í viðtali hjá United We Stand að vinir hans hafi mælt gegn því að hann tæki við stjórastöðunni hjá United.
Ten Hag er á sínu öðru tímabili hjá Man Utd og er undir mikilli pressu. Honum tókst að vinna fyrsta bikar Man Utd í sex ár þegar liðið vann Newcastle í úrslitum enska deildabikarsins á síðustu leiktíð.
Tímabilið í ár hefur hins vegar ekki gengið nægilega vel, liðið er í 6. sæti úrvalsdeildarinnar og á botni A riðils í Meistaradeildinni.
Ten Hag greindi frá því að vinir hans hafi ekki verið spenntir fyrir því að sjá hann taka við enska félaginu.
„Það voru allir að segja við mig: 'Þú getur ekki náð árangri í þessu starfi'. Þeir sögðu að þetta væri vonlaust, Ég? Ég vildi þessa áskorun," sagði Ten Hag.
„Ég vissi að þetta yrði ekki auðvelt en þetta er svo frábært félag með frábæra stuðningsmenn. Fólk elskar Man utd eða þeir eru á móti Man Utd. Ég kann vel við svoleiðis félög. AJax var svoleiðis."