Enska úrvalsdeildarfélagið Everton tilkynnti í dag að félagið væri búið að sparka Sean Dyche úr starfi og er nú leit hafin að nýjum stjóra, en Telegraph segir frá því að félagið sé að íhuga að fá David Moyes.
Dyche stýrði Everton með ágætis í þau tvö ár sem hann starfaði hjá félaginu en einn sigur í síðustu ellefu leikjum varð til þess að stjórnin ákvað að gera breytingar.
Hann var látinn fara í dag og mun Seamus Coleman stýra liðinu er liðið mætir Peterborough í enska bikarnum.
Telegraph segir að nokkrir menn séu á lista hjá Everton, en fyrrum stjóri þess, David Moyes, er sagður koma til greina.
Moyes er án efa besti stjóri Everton á þessari öld. Hann stýrði liðinu frá 2002 til 2013 og kom liðinu eftirminnilega í forkeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2005 og var valinn þjálfari ársins hjá LMA.
Einnig kom hann Everton í úrslit enska bikarsins árið 2009 eftir frækinn sigur á Manchester United í undanúrslitum. Það var fyrsti bikarúrslitaleikur félagsins síðan 1995. Liðið mætti Chelsea í úrslitum en tapaði, 2-1.
Moyes hætti með Everton árið 2013 og tók við Manchester United, en það ævintýri entist ekki lengi. Hann var rekinn í apríl árið 2014 en síðan þá hefur hann stýrt Real Sociedad, Sunderland og nú síðast West Ham.
Hann vann Sambandsdeild Evrópu með West Ham árið 2023 eða 24 árum frá því liðið vann Inter Toto-keppnina. Moyes yfirgaf West Ham þegar samningur hans rann út síðasta sumar og hefur verið án starfs síðan.
Portúgalski þjálfarinn Jose Mourinho hefur einnig verið orðaður við Everton en líkurnar á því að hann taki við eru ekki taldar miklar. Hann er í dag þjálfari Fenerbahce í Tyrklandi.
Athugasemdir