Yann Sommer, markvörður Bayern München, var ótrúlega ánægður með miðvörðinn Matthijs de Ligt eftir 2-0 sigur liðsins gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í gær.
PSG fékk algjört dauðafæri til að jafna metin í einvíginu undir lok fyrri hálfleiks þegar Sommer gerði slæm mistök.
Vitinha var með opið mark fyrir framan sig en ákvað að senda boltann í netið í stað þess að setja kraft í skotið. Það kom í bakið á Portúgalanum vegna þess að De Ligt kom á hörkuspretti og náði að renna sér í boltann og bjarga þannig á marklínu á síðustu stundu.
Sommer hrósaði miðverðinum eftir leik og lofaði að gefa honum súkkulaði í verðlaun.
„Ég mun koma með trukk fullan af svissnesku súkkulaði til að gefa honum. Ég mun skilja það eftir fyrir utan dyrnar heima hjá honum," sagði Sommer hress í sjónvarpsviðtali eftir leik og bætti við:
„Þetta var ótrúleg björgun hjá De Ligt."
Sjá einnig:
Sjáðu atvikið: De Ligt bjargaði Bayern í fyrri
Athugasemdir