þri 09. ágúst 2022 17:30
Elvar Geir Magnússon
Nýja VAR rangstöðutæknin notuð í Ofurbikar Evrópu
Nýja VAR rangstöðutæknin verður notuð á HM í Katar.
Nýja VAR rangstöðutæknin verður notuð á HM í Katar.
Mynd: FIFA
Leikurinn á morgun verður í Helsinki.
Leikurinn á morgun verður í Helsinki.
Mynd: Getty Images
Real Madrid og Eintracht Frankfurt mætast í fyrsta sinn í 62 ár þegar liðin leika um Ofurbikar Evrópu í Helsinki í Finnlandi annað kvöld.

Enski úrvalsdeildardómarinn Michael Oliver sér um að dæma leikinn en í honum verður notast við nýja VAR rangstöðutækni, sama kerfi og notað verður á HM í Katar.

Rangstöðudómar verða þannig að hluta til sjálfvirkir með nýrri tækni sem á að flýta fyrir ákvörðunum. Örlítill sendir verður í boltanum sem lætur vita af nákvæmri staðsetningu hans 500 sinnum á sekúndum og er tengdur tólf myndavélum sem staðsettar verða á þaki leikvangarins og nema hvar allir leikmennirnir eru.

Þannig er reiknað út hvaða leikmenn séu rangstæðir og kerfið lætur VAR aðstoðardómarann vita. Kerfið var prófað á Arab Cup á síðasta ári og á HM félagsliða. Talið er að það flýti ákvörðunum um rangstöður í gegnum VAR frá 70 sekúndum niður í 25 sekúndur.

Sjá einnig:
Leikið um Ofurbikar Evrópu í Helsinki á miðvikudag

Talað hefur verið um að aukin tækni í dómgæslu séu að minnka mikilvægi og völd dómaranna sjálfra en Pierluigi Collina, yfirmaður dómgæslu hjá FIFA, tekur ekki undir það.

„Ég heyrði talað um vélmenni í stað dómara. Ég skil að það er góð fyrirsögn en þannig er þetta ekki. Dómararnir sjá enn um að taka ákvarðanir inni á vellinum. Hann sér um að meta leikbrot en okkar markmið er að aðstoða hann við að taka réttar ákvarðanir. Það verða áfram umræður um vafaatriði," segir Collina.
Athugasemdir
banner
banner
banner