Man Utd og Chelsea leiða baráttuna um 63 milljóna punda Gyökeres - United hefur áhuga á Goretzka og Sane - Samningi Neymar gæti verið rift
banner
   fös 09. ágúst 2024 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þurfti að hafa fyrir því að ýta sér í gegn - „Ekki nóg að vera bara hérna"
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmenn Flora reyna að ná boltanum af honum.
Leikmenn Flora reyna að ná boltanum af honum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gottskálk Þórðarson, miðjumaður Víkings, var virkilega flottur í gærkvöldi þegar Víkingar gerðu jafntefli gegn Flora Tallinn frá Eistlandi í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Gísli hefur verið að fá stærra hlutverk að undanförnu í liði Víkinga eftir að meiðsli tóku sig upp í leikmannahópnum. Hann hefur verið að nýta tækifærið vel.

Gísli, sem verður tvítugur í september, var aðeins spurður út í stærra hlutverk eftir leikinn í gær.

„Mér líður mjög vel. Síðan tímabilið byrjaði hef ég reynt að taka öllum hlutverkum en auðvitað vill maður alltaf vera í eins stóru hlutverki og hægt er. Við erum með stóran hóp og maður þarf alltaf að vera tilbúinn," sagði Gísli.

„Þegar menn eru meiddir og maður fær stærra hlutverk, þá þarf maður að vera tilbúinn í það og standa sig. Það er ekki nóg að vera bara hérna. Maður þarf að skila frammistöðu þar sem við viljum vinna alla leiki. Ég er sáttur að fá stærra hlutverk og reyni að skila því eftir bestu getu."

Gísli, sem er uppalinn í Breiðabliki, gekk í raðir Víkinga frá Bologna á Ítalíu árið 2022. Gísli gat ekki verið áfram á Ítalíu út af niðurstöðu úr hjartalínuriti og þurfti hann að taka sér smá pásu frá fótbolta. Hann hefur verið í mótun hjá Víkingum síðustu árin og er núna að koma sterkur inn.

„Það hefur komið fram áður að fyrsta árið var mikil aðlögun þar sem ég var að komast aftur í fótbolta. Svo kem ég inn í þennan ótrúlega sterka hóp. Þetta hefur öll árin verið besti hópurinn. Maður hefur þurft að hafa fyrir því að ýta sér í gegn. Ég hef alltaf verið harður á því að vilja ekkert fara á láni. Ég vil ýta mér inn í liðið hérna og taldi mig geta það."

„Ég er mjög sáttur að spila í þessu liði. Það er gaman að vera í liði þar sem við erum að berjast á öllum vígstöðum," sagði Gísli.
Gísli Gotti: Fannst við miklu betri en þeir
Athugasemdir
banner
banner
banner