Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
   mán 09. september 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Izmir
Fimm áhugaverðustu leikmenn Tyrklands - Mæta Íslandi á eftir
Icelandair
Arda Guler, mjög spennandi leikmaður.
Arda Guler, mjög spennandi leikmaður.
Mynd: EPA
Varnarmaðurinn Merih Demiral.
Varnarmaðurinn Merih Demiral.
Mynd: EPA
Hakan Calhanoglu er tilnefndur til Ballon d'Or.
Hakan Calhanoglu er tilnefndur til Ballon d'Or.
Mynd: EPA
Kenan Yildiz.
Kenan Yildiz.
Mynd: Getty Images
Íslenska landsliðið er í Izmir í Tyrklandi. Í kvöld er komið að leik númer tvö í Þjóðadeildinni og er næsta verkefni Tyrkland á útivelli. Svo sannarlega erfitt verkefni.

Tyrkland hefur ekki oft verið með eins spennandi fótboltalið og það er núna.

Tyrkir eru að mæta til leiks eftir mjög gott Evrópumót þar sem þeir fóru í átta-liða úrslit en töpuðu gegn Hollandi. Þeir unnu frækinn sigur á Austurríki í 16-liða úrslitunum en Austurríkismenn höfðu spilað frábærlega á mótinu fram að þeim leik.

Þjálfari Tyrkja er Ítalinn Vincenzo Montella. Hann var mikill markahrókur á sínum leikmannaferli og gerði garðinn frægan sem leikmaður AS Roma, en þar áður lék hann fyrir fjandliðin Genoa og Sampdoria og var gríðarlega iðinn við markaskorun í ítalska boltanum.

Montella hefur gert flotta hluti frá því hann tók við tyrkneska landsliðinu og náð að koma sínum gildum fljótt inn. Hann er með nokkra afar góða leikmenn til að smíða liðið í kringum en þetta eru þeir fimm áhugaverðustu:

Mert Gunok (Besiktas)
Markvörður sem átti bestu markvörslu Evrópumótsins í sumar. „Við vorum ekki með heppnina með okkur. Ég trúi því að við hefðum unnið ef leikurinn hefði farið í framlengingu. Við fengum tækifæri til að jafna en það er erfitt þegar þeir eru með Gordon Banks í markinu," sagði Ralf Rangnick, þjálfari Austurríkis, eftir markvörslu Gunok. Það tók hann tíma að verða aðalmarkvörður Tyrklands en hann er 35 ára og hefur aldrei verið betri.

Merih Demiral (Al-Ahli)
Afar sterkur miðvörður sem gerði bæði mörk Tyrkja í sigurleiknum gegn Austurríki á EM. Demiral var hins vegar dæmur í tveggja leikja bann eftir leikinn þar sem hann fagnaði með fasistakveðju sem er bönnuð í Frakklandi og Austurríki. Demiral er að spila í Sádi-Arabíu og þiggur fyrir það há laun, en hann gæti klárlega verið að spila í öflugu liði í Evrópu ef hann myndi kjósa það.

Hakan Calhanoglu (Inter)
Var á dögunum tilnefndur til Ballon d'Or verðlaunanna sem eru veitt besta leikmanni heims. Calhanoglu hefur tekið nokkrum breytingum sem leikmaður en hann átti magnað tímabil með Inter þar sem hann var valinn í lið ársins í ítölsku úrvalsdeildinni. Hann hefur í gegnum tíðina verið þekktur fyrir að leika sem sóknarsinnaður miðjumaður en hann færðist aftar hjá Inter á nýliðnu tímabili og lék frábærlega sem leikstjórnandi liðsins. Hann er stærsta stjarnan í liði Tyrklands, án vafa.

Arda Guler (Real Madrid)
Var á dögunum útnefndur sem einn af bestu ungu leikmönnum heims. Búinn að eiga í miklum erfiðleikum með meiðsli eftir að hann gekk til liðs við Real Madrid í fyrra en Arda Guler sýndi svo sannarlega í hvað honum býr þegar hann fékk að spila á síðasta tímabili. Á aðeins 373 mínútum með Real Madrid síðasta vetur skoraði kappinn sex mörk. Þrátt fyrir ungan aldur á þessi litli og skemmtilegi miðjumaður 13 leiki fyrir tyrkneska A-landsliðið og hefur hann skorað í þeim tvö mörk. Hann býr yfir sturluðum gæðum en hann er tæpur fyrir leikinn gegn Íslandi í kvöld.

Kenan Yildiz (Juventus)
Maður sér fyrir sér að Yildiz og Guler geti haldið uppi sóknarleiki Tyrklands í mörg ár. Og með þá í liðinu geti Tyrkland náð frábærum árangri á heimsvísu. Yildiz er á sama aldri og Guler en þeir eru báðir fæddir árið 2005. Yildiz er afar sprækur leikmaður sem getur bæði spilað miðsvæðis og á kanti. Hann er byrjunarliðsmaður hjá stórliði Juventus á Ítalíu.

Leikur Tyrklands og Íslands hefst 18:45 í kvöld og er auðvitað í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner