Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   mán 09. október 2023 14:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gósentíð fyrir unga þjálfara
Elvar Geir Magnússon
Halldór Árnason er orðinn aðalþjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason er orðinn aðalþjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjö af tólf félögum sem voru í Bestu deild karla þetta tímabilið eru með aðalþjálfara í dag sem stigu beint upp úr því að vera aðstoðarþjálfarar hjá liðunum. Þetta þykir mér merkileg tala.

Félög eru í ríkari mæli farin að setja traust sitt á unga spennandi þjálfara og stór félög virðast ekki hika við að gefa mönnum traustið þrátt fyrir takmarkaða reynslu að vissu leyti.

Með tækni, tólum og gögnum virðast þjálfarar hreinlega verða tilbúnir fyrr en áður og tískan er sú að fá inn ferska vinda með nýjum mönnum. Ástæðan er sú að þeir nýju þjálfarar sem hafa fengið traustið hafa flestir staðið undir því og gert góða hluti.

Ekki eru mörg ár síðan umræðan var um það að þjálfaraflóran væri frekar einsleit og sömu mennirnir væru sífellt að flakka á milli félaga. Þetta er eitthvað sem hefur gjörbreyst á skömmum tíma.

Í gær gerði Breiðablik þriggja ára samning við Halldór Árnason og hann stígur upp úr starfi aðstoðarþjálfara í aðalþjálfara. Jökull Elísabetarson hefur gert frábæra hluti með Stjörnunni eftir að hafa fengið stýrið og KA setti traust sitt á Hallgrím Jónasson þegar Arnar Grétarsson hvarf á braut.

Ómar Ingi Guðmundsson hjá HK og Sigurður Höskuldsson, núverandi aðstoðarþjálfari Vals og fyrrum þjálfari Leiknis, fóru með lið upp í Bestu deildina og héldu þeim þar. Ragnar Sigurðsson tók við Fram þegar Jón Sveinsson var rekinn og Keflavík leitaði líka til aðstoðarþjálfarans.

Svo er líka hægt að horfa eftir dæmum í Lengjudeildinni og hjá yngri landsliðum Íslands.

Breiddin í þjálfaraflórunni er orðin gríðarlega mikil og fullt af nýjum nöfnum hafa haslað sér völl í meistaraflokksþjálfun. Davíð Smári Lamude verður með Vestra í deild þeirra bestu á næsta ári.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að aldrei hafi Ísland átti eins mikið magn af frambærilegum þjálfurum og fagnaðarefni að sjá þessa endurnýjun sem hefur átt sér stað.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner