Wojciech Szczesny gekk nýlega til liðs við Barcelona þar sem hann berst við Inaki Pena um markmannsstöðuna hjá toppliði spænsku deildarinnar eftir að Marc-André ter Stegen varð fyrir alvarlegum meiðslum.
Szczesny fór í viðtal við Mundo Deportivo í dag og var spurður út í ýmislegt. Hann ræddi um samherja sína Lamine Yamal, Robert Lewandowski, Raphinha og Pau Cubarsí meðal annars áður en hann var spurður út í reykingar.
Szczesny hefur oftar en einu sinni verið myndaður við að reykja sígarettu og spurði fréttamaður um það.
„Það eru hlutir í mínu persónulega lífi sem ég breyti ekki. Það kemur engum við hvort ég reyki eða ekki," sagði Szczesny.
„Ef fólk heldur að það geti látið mig breyta lifnaðarháttum í mínu persónulega lífi þá skjátlast því. Það hefur aldrei virkað."
Szczesny er 34 ára gamall og lagði markmannshanskana á hilluna í sumar eftir sjö ára dvöl hjá Juventus. Hann tók hanskana af hillunni til að ganga í raðir Barcelona.
Athugasemdir