Færeyski sóknarmaðurinn Klæmint Olsen spilaði í kvöld sinn síðasta leik fyrir Breiðablik. Hann hefur verið á láni hjá félaginu frá NSÍ Runavík í ár. Það tók hann tíma að finna fjölina en hann hefur sýnt það að hann er mjög öflugur sóknarmaður.
Hann kom inn af bekknum í svekkjandi 2-3 tapi gegn Gent í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld en hann var tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla.
Hann kom inn af bekknum í svekkjandi 2-3 tapi gegn Gent í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld en hann var tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 3 Gent
„Það var erfitt að spila á vellinum en mér fannst við standa okkur mjög vel," sagði Klæmint eftir leikinn. „Ég er alltaf tilbúinn að hjálpa liðinu ef ég er klár í slaginn."
Hann segir að hann muni klárlega sakna Breiðabliks, hann hafi átt góðan tíma hérna.
„Það er alltaf erfitt að kveðja fólk sem þér þykir vænt um. Ég hef bara góða hluti að segja um Breiðablik," segir Klæmint. „Tími minn hefur verið mjög góður hérna, frábær reynsla. Að vera hluti af þessu sögulega liði hefur verið algjörlega frábært."
Stuðningsmenn Breiðabliks hafa elskað Klæmint frá fyrstu mínútu og hann er þakklátur fyrir það.
„Allt fólkið í kringum félagið er magnað. Það hefur verið auðvelt fyrir mig að aðlagast. Þetta er blessun fyrir mig."
„Ég mun klárlega sakna landsins. Ísland mun alltaf eiga stað í hjarta mínu, út ævina. Ég mun koma aftur hingað einn daginn," sagði Klæmint en hann fer núna aftur heim til Runavíkur.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir