Miðjumaðurinn knái Naby Keita er á leið í ungverska boltann eftir áramót. Þetta staðfestir fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano, sem virðist aldrei hafa rangt fyrir sér.
Keita er aðeins 29 ára gamall og lék fyrir Liverpool í fimm ár áður en hann skipti yfir til Werder Bremen á frjálsri sölu í fyrrasumar.
Keita kom við sögu í 129 leikjum með Liverpool en hefur ekki gengið vel frá félagaskiptunum til Bremen.
Keita hefur aðeins tekið þátt í fimm leikjum á einu og hálfu ári hjá Werder Bremen og mun nú reyna fyrir sér hjá Ferencváros sem hefur verið langbesta liðið í Ungverjalandi undanfarin ár.
Ferencváros er búið að vinna ungversku deildina sex ár í röð og er í öðru sæti sem stendur, með 31 stig eftir 15 umferðir.
Keita hefur verið að glíma við mikið af meiðslum á undanförnum árum en ástæðan fyrir litlum spiltíma í Bremen er ósætti hans við Ole Werner, aðalþjálfara liðsins.
07.12.2024 11:40
Naby Keita á leið til Ungverjalands
Athugasemdir