Kvaratskhelia orðaður við Man Utd og Liverpool - Moyes fyrsti kostur Everton - Man Utd blandar sér í baráttuna um Mbeumo
   fös 10. janúar 2025 19:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Júlli Magg í Elfsborg (Staðfest) - Einn dýrasti leikmaður í sögu félagsins
Mynd: IF Elfsborg
Miðjumaðurinn Júlíus Magnússon er genginn í raðir Elfsborg frá Fredrikstad í Noregi. Hann hefur skrifað undir samning út 2029.

Kaupverðið er um 1 milljón evra og gæti síðar meir hækkað upp í 1,5 milljónir evra. Allt í allt gætu þetta orðið um 225 milljónir íslenskra króna. Samkvæmt Transfermarkt hefur einungis einn kostað meira en það er Anders Svensson sem Elfsborg keypti frá Southampton fyrir tæpum 20 árum.

Júlíus er 26 ára varnarsinnaður miðjumaður sem seldur var frá uppeldisfélaginu Víkingi til Fredrikstad snemma árs 2022 og var fljótur að vinna sig inn í liðið. Strax á fyrsta tímabili var hann byrjaður að bera fyrirliðabandið og hjálpaði liðinu að vinna 1. deildina í Noregi.

Fredrikstad átti gott tímabil í efstu deild Noregs á síðasta ári og varð bikarmeistari. Júlíus var fyrirliði liðsins og skoraði sigurmarkið í vítaspyrnukeppninni í úrslitaleik bikarsins.

Hann spilaði alla leiki, allar mínútur á síðasta tímabili og vann sig upp á næsta stig. Miðjumaðurinn hefur verið í síðustu þremur landsliðsverkefnum og á að baki fimm A-landsleiki.

Setur liðið alltaf í fyrsta sæti
Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Júlíusar, er stoltur af sínum manni.

„Það er ákaflega gleðilegt þegar ósérhlífnir leikmenn eins og Júlli eru metnir að verðleikum. Hann er ábyrgðarfullur og samviskusamur leikmaður sem setur liðið ávallt í fyrsta sæti en ekki sjálfan sig. Og er þess vegna fyrirliði. Hann spilaði alla leiki Fredrikstad i deildinni á siðasta tímabili frá upphafi til enda semmer afrek. Hann vantaði ekki einu sinni á æfingu! Og bætti síðan bikarmeistaratitli í safnið með því að skora markið sem öllu skipti. Nú er hann að uppskera eins og hann hefur til sáð og það finnst mér frábært,” segir Ólafur um Júlíus og skiptin.

Á heimasíðu Elfsborg segir að félagið hafi lengi haft augastað á Júlíusi og mikil ánægja sé með að hafa tryggt sér hann.

Hjá Elfsborg er Eggert Aron Guðmundsson sem keyptur var frá Stjörnunni fyrir ári síðan. Liðið endaði í sjöunda sæti sænsku deildarinnar á síðasta tímabili. Það er í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, með sjö stig eftir sex fyrstu leikina og situr í 24. sæti - umspilssæti. Framundan eru krefjandi leikir gegn Nice og Tottenham til að komast í umspilið.
Athugasemdir
banner
banner