Kvaratskhelia orðaður við Man Utd og Liverpool - Moyes fyrsti kostur Everton - Man Utd blandar sér í baráttuna um Mbeumo
   fös 10. janúar 2025 16:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðar Örn framlengir við KA (Staðfest) - Laus úr banninu
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar í bikarúrslitaleiknum með KA síðasta sumar.
Viðar í bikarúrslitaleiknum með KA síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA hefur staðfest það að Viðar Örn Kjartansson verði með félaginu næsta sumar. Sagt var frá því á Fótbolta.net í gær að allt útlit væri fyrir að Viðar myndi leika áfram með Akureyrarfélaginu og nú er búið að staðfesta það.

„Eru þetta ákaflega góðar fréttir en Viðar er einhver allra mesti markaskorari í sögu Íslands og sýndi hann gæði sín með KA á síðustu leiktíð," segir í tilkynningu frá KA um að Viðar hafi gert nýjan samning.

Viðar gekk í raðir KA skömmu fyrir síðasta sumar. Hann var ekki alveg heill í upphafi sumars en þegar hann hristi það af sér sýndi hann gæði sín og átti heldur betur stóran þátt í því að KA stóð uppi sem bikarmeistari í fyrsta skiptið í sögu félagsins.

„Það er klárt að reynsla Viðars mun vega þungt í Evrópuleikjunum og ætlumst við til mikils af þessum öfluga kappa," segir í tilkynningu KA.

Laus úr banninu
Viðar var í október síðastliðnum úrskurðaður í sex mánaða keppnisbann af FIFA vegna skuldar við sína fyrrum vinnuveitendur í Búlgaríu, CSKA Sofia 1948. Viðar var leikmaður félagsins í um hálft ár, samdi um mitt sumar 2023 en fékk samningi sínum rift í desember það sama ár.

Viðar samdi við KA í lok mars á síðasta ári og þá átti framherjinn að greiða búlgarska félaginu ákveðna upphæð. Viðar sagði við Stöð 2 í október síðastliðnum að um væri að ræða vel viðráðanlega upphæð og að málið yrði leyst bráðlega. Viðar segir við Fótbolta.net að búið sé að leysa það og banninu hafi verið aflétt. Hann getur því byrjað að spila aftur með KA.

„Við erum hæstánægð með að halda honum áfram innan okkar raða og hlökkum til að sjá til hans í sumar í gula og bláa búningnum," segja KA-menn en Viðar á að baki flottan atvinnumannaferil og þá hefur hann leikið 32 landsleiki fyrir Ísland. Í þeim hefur hann gert fjögur mörk.
Athugasemdir
banner
banner
banner