Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
   lau 10. febrúar 2024 22:22
Ívan Guðjón Baldursson
Afríkukeppnin: Suður-Afríka hirti bronsið eftir þriðju vítakeppnina í röð
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Suður-Afríka 0 - 0 Austur-Kongó
6-5 í vítaspyrnukeppni

Suður-Afríka og Austur-Kongó áttust við í bronsleik Afríkukeppninnar í kvöld og var staðan markalaus eftir bragðdaufan fyrri hálfleik.

Stjörnum prýtt lið Kongó tók völdin á vellinum í síðari hálfleik en tókst ekki að koma boltanum í netið framhjá hinum öfluga Ronwen Williams, sem hefur verið hetja Suður-Afríkumanna á mótinu.

Ekki var farið í framlengingu, heldur var ákveðið að fara beint í vítaspyrnukeppni til að forða leikmönnum frá álagsmeiðslum. Þetta var því þriðja vítaspyrnukeppnin í röð sem Suður-Afríkumenn fóru í, eftir sigur gegn Grænhöfðaeyjum í 8-liða úrslitum og tap gegn Nígeríu í undanúrslitum.

Teboho Mokoena byrjaði á því að klúðra fyrir Suður-Afríku, en svo skoruðu allir leikmenn þar til Chancel Mbemba gat tryggt Kongó sigurinn með síðustu vítaspyrnunni, en hann lét Williams verja frá sér og því var farið í bráðabana. Þar hafði Suður-Afríka betur eftir aðra markvörslu frá Williams og hreppir því bronsið.

Heimamenn í Fílabeinsströndinni spila við Nígeríu í úrslitaleik Afríkukeppninnar annað kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner