Félagaskipti Birkis Más Sævarssonar til Nacka FC í fjórðu efstu deild sænska boltans virðast vera frágengin.
Birkir Már er 40 ára gamall og leikur sem hægri bakvörður að upplagi. Hann á glæsilegan feril að baki með íslenska landsliðinu auk þess að hafa verið mikilvægur hlekkur hjá Brann í Noregi, Hammarby í Svíþjóð og Val á Íslandi.
Birkir Már greindi frá því í samtali við Fótbolta.net í október að hann hefði mikinn áhuga á því að snúa aftur til Svíþjóðar með fjölskylduna og spila þar ef tækifæri gæfist.
„Já, það er rétt hjá ykkur," svaraði Salih Shala, yfirmaður fótboltamála hjá Nacka, þegar hann var spurður hvort Birkir Már væri á leiðinni til félagsins. „Það er ekkert leyndarmál að hann verður besti varnarmaður deildarinnar.
„Þetta er mjög stórt fyrir klúbbinn og sérstaklega ungu strákana sem spila hérna. Við erum með frekar ungan leikmannahóp og Birkir verður góð fyrirmynd fyrir strákana. Við erum heppnir að hann er að flytja rétt hjá Nacka hverfinu með fjölskyldu sína, það er raunverulega ástæðan fyrir því að hann valdi okkur.
„Við höfðum samband við hann af fyrra bragði, við vissum af honum og ákváðum að heyra í honum. Hann kíkti á nokkrar æfingar hjá okkur og hefur greinilega fundist það gaman. Hann segist vilja halda áfram að spila fótbolta eins lengi og hann getur enda er hann í furðulega góðu formi miðað við 40 ára gamlan mann. Við höfðum einhverjar áhyggjur af forminu sem hann kæmi til okkar í en hann hefur litið ótrúlega vel út þessar tvær vikur sem hann er búinn að æfa með okkur."
Birkir er kominn með vinnu í Stokkhólmi þar sem hann er að selja málmplötur samhliða því að spila fótbolta með Nacka.
„Markmiðið okkar er að komast upp um deild og Birkir getur vonandi hjálpað okkur með það. Það er virkilega spennandi ár framundan hjá okkur."
Athugasemdir