Magni í Grenivík er búinn að styrkja leikmannahópinn hjá sér með fjórum nýjum leikmönnum í tilraun til að komast upp úr 3. deildinni.
Magni endaði í fimmta sæti deildarinnar í fyrra og stefnir hærra í ár eftir komu Arons Elís Kristjánssonar, Bjarka Þórs Viðarssonar, Gunnars Darra Bergvinssonar og Óla Þórs Haukssonar.
Bjarki Þór er aldursforseti þessa fjögurra leikmanna og jafnframt sá reynslumesti. Hann er fæddur 1997 og er með 242 KSÍ-leiki að baki fyrir Þór og KA.
Bjarki, sem er fjölhæfur varnarmaður, spilaði 17 leiki fyrir Þór í Lengjudeildinni í fyrra og er ljóst að hann verður afar mikill liðsstyrkur fyrir Magna.
Gunnar Darri, fæddur árið 2000, er þá kominn til Grenivíkur úr Hafnarfirði þar sem hann lék fyrir Hauka. Gunnar er Akureyringur og snýr því aftur norður með þessum félagaskiptum, eftir að hafa mistekist að hirða byrjunarliðssæti hjá Haukum.
Gunnar skoraði 5 mörk í 15 leikjum í 2. deild árið 2023 og hefur í heildina skorað 17 mörk í 76 KSÍ-leikjum.
Aron Elí kemur til Magna úr röðum KF þar sem hann hefur leikið gott hlutverk á undanförnum árum, þar sem hann hefur tekið þátt í 37 af síðustu 44 deildarleikjum KF. Aron er fæddur 2001 og er uppalinn á Akureyri.
Að lokum er Óli Þór Hauksson, fæddur 2005, búinn að skrifa undir samning. Óli er uppalinn hjá Þór og hefur ekki spilað keppnisleik fyrir meistaraflokk á Íslandi.
Athugasemdir