Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 10. maí 2021 16:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2. deild kvenna: 5. sæti
ÍR er spáð 5. sæti í 2. deild
ÍR er spáð 5. sæti í 2. deild
Mynd: ÍR
Finnski miðjumaðurinn Vera Mattila leikur með ÍR í sumar
Finnski miðjumaðurinn Vera Mattila leikur með ÍR í sumar
Mynd: ÍR
Reynsluboltinn Auður Sólrún stendur á milli stanganna
Reynsluboltinn Auður Sólrún stendur á milli stanganna
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2.deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við báðum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-12 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5. ÍR
6. Sindri
7. Fram
8. Hamrarnir
9. Hamar
10. Álftanes
11. SR
12. Einherji
13. KM

Lokastaða í fyrra: 9. sæti í 2. deild

Þjálfarar: Engilbert Friðfinnsson og Margrét Sveinsdótti stýra liðinu saman. Engilbert hefur verið í kringum liðið síðustu ár og komið að þjálfun þess. Margrét er hinsvegar í sínu fyrsta meistaraflokksþjálfarastarfi en hún lék með Þrótti í Pepsi Max-deildinni á síðasta tímabili en hafi áður leikið tæpa 100 leiki fyrir uppeldisfélag sitt ÍR.

Það er metnaður og meðbyr í neðra Breiðholtinu eftir vonbrigðatímabil síðasta sumar. Nýtt þjálfarateymi hefur komið inn af krafti og liðið, sem er að mestu skipað sömu leikmönnum og í fyrra ætlar sér stóra hluti. Liðið gerði vel í að halda í lykilleikmenn og hefur litið vel út á undirbúningstímabilinu.

Lykilmenn: Unnur Elva Traustadóttir, Vera Mattila, Anja Ísis Brown

Gaman að fylgjast með: Hin tvítuga Vera Mattila er finnskur miðjumaður sem er góð á bolta og reynslumikil þrátt fyrir ungan aldur. Það verður spennandi að sjá hvernig hún kemur út á miðjunni hjá ÍR.

Við heyrðum í þjálfurunum Berta og Margréti og spurðum þau út í spánna og sumarið:

Hvað finnst ykkur um að vera spáð 5. sætinu og kemur það á óvart?

„Nei, nei, við erum alveg sátt með þessa spá. Hún kemur ekkert sérstaklega á óvart í ljósi þess að við lentum í neðsta sæti í fyrra og erum búin að spila frekar fáa leiki á undirbúningstímabilinu.”

Hver eru markmið ÍR fyrir sumarið?

„Aðalmarkmiðið er nokkuð skýrt og einfalt. Við ætlum okkur upp í sumar. Það er kannski frekar bratt plan miðað við hvar við enduðum síðasta tímabil en við teljum okkur vera með nógu gott lið til að vera í baráttu um að komast upp.“

„Þess vegna viljum við augljóslega ná betri árangri og gera betur en í fyrra með því að spila skemmtilegan sóknarfótbolta. Síðasta tímabil var auðvitað skrítið fyrir alla vegna Covid, en liðið er til dæmis með meiri reynslu í ár þar sem hópurinn er mikið til byggður á sama kjarna og í fyrra."


Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?

„Það hefur gengið svona upp og ofan. Covid hefur auðvitað sett strik í reikninginn hjá okkur eins og hjá örugglega öllum öðrum liðum. Við náðum til dæmis aðeins tveimur keppnisleikjum í vor sem var ekki beint óskastaða. Á móti kemur tókum við þátt í nýju Boreal móti sem KM hélt og svo spiluðum við nokkra æfingaleiki, sem var mjög gott fyrir liðið.“

„Hópurinn er líka búinn að standa sig mjög vel í þessu mótlæti, enda stemningin og liðsandinn rosalega góður. Þetta er þéttur hópur og við erum rosa ánægð með dugnaðinn og þolinmæðina sem þær hafa sýnt.“

„Fyrir stuttu síðan hófst svo samstarf milli ÍR og Þróttar fyrir 2.flokk kvk. sem við erum rosalega ánægð með. Það gefur yngri leikmönnum tækifæri til að spila fleiri leiki og bæta sig sem leikmenn.“


Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?

„Nei, hópurinn er nokkurn veginn byggður á sama kjarna og í fyrra. Eðlilega hafa einhverjar dottið út eins og gerist í flestum liðum, en við höfum líka bætt við nokkrum nýjum leikmönnum í hópinn sem við teljum styrkja liðið.“

Við hverju má búast af 2.deild í sumar?

„Deildin gæti alveg orðið frekar tvískipt í sumar, enda mörg lið skráð til leiks. Samkeppnin verður engu að síður mjög hörð, sérstaklega um efstu 4 sætin og 2. deild gæti orðið mjög spennandi í ár. Það eru nokkur lið frekar stór spurningamerki í okkar augum vegna þess að það voru fáir leikir á undirbúningstímabilinu, miklar breytingar í sumum liðum og auðvitað því það eru 4 ný lið skráð til leiks. Svo verður mikið um lengri ferðalög og þannig útileikir eru alltaf erfiðir. Það gæti því orðið nokkuð um óvænt úrslit inn á milli.“

„Annars er auðvitað deildin frekar undarleg í ár, þar sem spilað verður einföld umferð með 12 deildarleikjum fyrir hvert lið. Þetta er að okkar mati skref aftur á bak og vanvirðing við þessa deild, liðin og leikmennina. Vonandi verður þetta endurskoðað fyrir næsta ár, enda eiga leikmenn sem eru með 5-7 mánaða undirbúningstímabil skilið fleiri en 12 deildarleiki.“

„En allt í allt eigum við von á spennandi móti og úrslitakeppni í sumar!“


Komnar:
Heiða Helgudóttir frá Gróttu
Þórey Sif Hrafnsdóttir frá Álftanesi
Vera Mattila frá Finnlandi
Klara Ívarsdóttir frá ÍA

Farnar:
Snjólaug Þorsteinsdóttir etr hætt
Catarina Lima er hætt
Helga Dagný Bjarnadóttir er hætt
Halldóra Gísladóttir er hætt
Alísa Rakel Abrahamsdóttir er hætt
Brynja Dögg Sigurpálsdóttir er hætt

Fyrstu leikir ÍR:
13. maí Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir - ÍR
27. maí ÍR - Álftanes
7. júní Fjölnir - ÍR
Athugasemdir
banner
banner
banner