
„Ég er svekktur að hafa við höfum ekki náð að vinna þennan leik. Ég veit að hinn leikurinn endaði með jafntefli en ég er samt svekktur að fá ekki þrjú stig úr þessum leik," sagði sóknarmaðurinn Benoný Breki Andrésson eftir markalaust jafntefli gegn Grikklandi á lokakeppni Evrópumótsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland U19 0 - 0 Grikkland U19
Þetta var síðasti leikur U19 landsliðsins á mótinu en strákarnir enduðu í þriðja sæti í sínum riðli með tvö stig.
Stuðningurinn við liðið á mótinu var stórkostlegur. „Stuðningurinn hefur verið frábær, virkilega góður. Þetta var gæsahúð, það er eiginlega það eina sem er hægt að segja við þessu," sagði Benoný um það sem gerðist eftir leik.
Benoný, sem er leikmaður KR, var ekki í upprunalega hópnum en hann kom inn þegar tveir menn duttu út rétt fyrir mót. Þetta var góð reynsla fyrir hann en sóknarmaðurinn er á þeim aldri að hann getur verið áfram í þessu liði í næstu undankeppni.
„Ég var virkilega ánægður að fá kallið. Ég tók því eins og ég hefði verið valinn fyrst, það var mjög gott að fá þetta kall. Núna get ég sagt að ég hef spilað á EM og ég veit hvernig þetta er. Þetta eru alvöru lið og alvöru harka. Þetta er geggjuð reynsla," sagði Benoný að lokum og bætti við:
„Ég er virkilega ánægður með hópinn. Þetta er skemmtilegur og góður hópur."
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir