Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   sun 10. október 2021 14:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kominn með upp í kok af varnarleiknum - Æskan hafði betur
Icelandair
Mynd sem lýsir varnarleiknum nokkuð vel.
Mynd sem lýsir varnarleiknum nokkuð vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur átti góðan leik.
Jón Dagur átti góðan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarleikurinn hjá íslenska landsliðinu í marki Armeníu síðastliðið föstudagskvöld, var harðlega gagnrýndur í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær.

„Ég er eiginlega kominn með upp í kok af þessum varnarleik," sagði Tómas Þór Þórðarson.

Íslenska landsliðið hefur oft litið betur út í gegnum tíðina en í þessu marki. Það fór margt úrskeiðis. Varnarleikurinn upp á síðkastið hefur ekki verið góður.

„Guðlaugur Victor fékk að heyra það frá Bjarna Guðjóns fyrir leik. Hann er búinn að eiga rosalega dapra leiki. Hann verður að taka þessari umræðu og gerir það; þetta er flottur strákur og allt það. Hann kom eins og stormsveipur inn í liðið. Það skipti engu máli hvar hann spilaði. Maður hefði treyst honum til að spila markið fyrir ári síðan. Það er eitthvað slokknað á honum. Sem nautið á miðjunni - sem gæinn sem á að vinna boltann - þá hleypur hann fram hjá manninum sem snýr og sólar tvo í viðbót."

„Þetta var mjög skrítið. Það voru líklega allir í íslenska liðinu nema Viðar komnir aftur fyrir boltann," sagði Magnús Már Einarsson.

„Það átti svo margt eftir að gerast að það er ekki bara hægt að henda því á Guðlaug Victor. En þetta byrjaði þar," sagði Tómas.

„Hann nær að þræða sig fram hjá Guðlaugi Victori mjög auðveldlega og fram hjá tveimur öðrum. Hann er kominn inn í teig og svo fá þeir að taka fyrirgjöfina óáreittir. Þar er maður einn á fjær. Það er svo margt að, en það vantaði ekkert upp á mannskapinn. Menn voru að skila sér til baka," sagði Magnús og bætti Tómas þá við:

„Það voru fleiri í vítateig íslenska landsliðsins í bláu, en í stúkunni. Ég hef aldrei séð annað eins haf af bláum treyjum. Taland um gildi og þess háttar; ef það er einhver sem á að vita hvað hann á að gera, þá er það Ari Freyr Skúlason. Drífðu þig út í manninn og lokaðu á þennan kross! Við erum með gæja með samtals 170 landsleiki í bakvörðunum. Þarna er traustið okkar. Ari fer ekki út í krossinn - sem ég held að sé algjört lykilatriði í gildum okkar - og hinum megin er 100 landsleikja maðurinn, heiðarlegasta mannvera sem til er - Birkir Már Sævarsson," sagði Tómas en Birkir klikkaði á dekkningunni í markinu.

Þeir yngri stóðu sig betur
Í leiknum gegn Armeníu voru það yngri leikmennirnir sem stóðu sig betur en þeir reynslumeiri.

„Birkir á tvær tæklingar sem bjarga marki á móti og stoðsendingu. Þó hann hafi klikkaði í einu augnabliki, þá átti hann góð augnablik á móti. Guðlaugur Victor var einn af reyndari mönnunum og hann var ekki góður. Birkir Bjarna sást lítið á miðjunni... á meðan þessir yngri; Ísak var öflugur, Jón Dagur var frábær. Æskan hafði betur gegn reynslunni ef við förum að telja upp úr pokanum," sagði Magnús Már.

Ísland mætir Liechtenstein á Laugardalsvelli á morgun. Fyrir þann leik er Guðlaugur Victor Pálsson búinn að draga sig úr hópnum. Ari Freyr Skúlason, Birkir Már Sævarsson og Ísak Bergmann Jóhannesson eru þá í banni.


Landsliðsumræða - Tómlegur völlur og döpur úrslit
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner