„Mér líður ekkert sérlega vel. Þetta voru vonbrigða úrslit. Við gerum vel út á velli og náum að komast í fínar stöður en náum ekki að breyta því í færi. Þeir skora tvö mörk en við höldum áfram að reyna og reyna en þetta var ekki okkar dagur í dag. Segir Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U21 landsliðsins, eftir 2-0 tap gegn Litháen.
Lestu um leikinn: Ísland U21 0 - 2 Litáen U21
Íslenska liðið var aldrei líklegt til afreka gegn liði Litháen sem var stigalaust fyrir leik, Ólafur var spurður hvort um vanmat væri að ræða.
„Þetta var alls ekki vanmat. Það sást á leiknum að við vorum yfir í leiknum sjálfum. Það vantaði upp á hjá okkur á síðasta þriðjung og þeir refsuðu okkur all verulega í vörninni sem gerist í alþjóðafótbolta."
EM draumurinn er úti hjá liðinu en Óli tók við í miðri undankeppni og því bara rétt að byrja í starfi.
„Við horfum á leikinn gegn Dönum og svo horfum við á næstu undankeppni síðar. Þetta er mikilvægur leikur enda eru allir landsleikir mikilvægir. Auðvitað hefðum við viljað fara til Danmerkur með eitthvað undir en það er ekki raunin"
Fullur fókus er því hjá liðinu að sýna sitt rétta andlit í Danmörku.
„Það er ekki spurning, Góð frammistaða og úrslit er það sem við viljum sjá."
Athugasemdir