
Ragnar Sigurðsson segir að íslenska landsliðið sé betur í stakk búið til að eiga við Króata núna heldur en fyrir þremur árum þegar Ísland tapaði 2-0 í leik liðanna í Zagreb í umspili fyrir HM í Brasilíu.
„Þetta eru flest allt sömu leikmennirnir en við erum með meiri reynslu. Við höfum spilað saman lengur og erum kannski orðnir aðeins samstilltari," sagði Raggi við Fótbolta.net í dag.
„Við vorum í dauðafæri í seinni hálfleik þegar við vorum einum manni fleiri og þurftum bara eitt mark. Við panikkuðum og fengum strax á okkur 2-0 mark. Þá var þetta búið og við skitum á okkur. Við verðum betur undirbúnir fyrir þennan leik."
„Við lærðum mikið af þessum leik sem við töpuðum. Við héldum áfram að vinna leiki eftir hann og komum okkur á EM. Við þurfum ekki að mæta í brjáluðum hefndarhug en það er fínt að geta notað það ef það vantar eitthvað motivation. Það ætti samt ekki að vera."
Fyrir leikina gegn Króötum árið 2013 vakti Ragnar athygli með ummælum sínum um að hann þekkti lítið til framherjans Mario Mandzukic. Króatar voru móðgaðir á ummælunum á sínum tíma á meðan Ragnar var pirraður á því hvað ummæin voru blásin upp.
„Maður veit hver Mandzukic er núna. Ég veit að hann er góður og maður þarf að hafa auga með honum," sagði Ragnar en er hann búinn að kynna sér framherjann mikið?
„Ég er ekkert búinn að kynna mér hann neitt rosalega. Við erum búnir að tala um hann á fundunum og sjá hvað hann er að gera. Þetta er gaur sem svífst einskis og maður þarf að hafa gott auga með honum."
Leikurinn fer fram yfir luktum dyrum eftir ólæti hjá stuðningsmönnum Króata í síðustu undankeppni.
„Það er mjög þægilegt að geta talað saman inni á vellinum og enginn skilur hvað við erum að segja. Ég tel að þetta sé gott fyrir okkur þar sem við erum á útivelli," sagði Raggi að lokum.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir