Juventus segir nei við Rashford - Stærstu félögin á Englandi vilja Musiala - Olmo gæti farið frítt frá Barcelona
   mán 10. desember 2018 16:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þór Akureyri og lífið
Eymundur Eymundsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Eymundur Eymundsson.
Eymundur Eymundsson.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Sagan er aldrei of oft sögð til að minna á fortíð og gera að opnara og betra samfélagi fyrir alla óháð stöðu og stétt. Íþróttir hafa mikið forvarnargildi og þá skiptir máli að unnið sé vel með sjálfsmyndina og að allir sem hafi áhuga geti stundað óháð getu. Ég deila minni reynslu sem rænir einstaklingum lífgæðum og lífi ef ekkert er að gert hvort sem þú ert í íþróttum eða ekki.

Í lagi eftir Bjarna Hafþór ég er Þórsari kemur texti sem mig langar að byrja á.
Að vera nýtur þegn á voru landi,
er vert að ræða um og fólk að fræða um.
Lífið er bræðralag, lifi sá andi.
Við lútum höfði í þakkarskuld.
Hér liggja gamalgrónar rætur …
Í hjarta mínu er ég Þórsari…

Þetta á vel við þar sem Þór er félag sem ól mig upp og á ég því margt að þakka. Ég hef eignast marga vini og félaga í Þór sem ég er þakklátur fyrir að fá að vera samferða í mínu ferðalagi gegnum lífið.

Ég vona að geti ég gefið eitthvað til baka um nauðsyn þess að standa saman.

Ég toppaði á mínum knattspyrnuferli árið 1979 og þá 12 ára gamall. Ég var markahæstur í 5.flokki Þórs með 8 mörk og lentum í 2. sæti Íslandsmótsins eftir að hafa tapað úrslitaleik á móti sterku ÍR liði. Ég hélt að ég myndi eiga góða framtíð í boltanum en því miður var feluleikur byrjaður á þessum tíma til að fela vanlíðan.

Ég hef verið að fræða um andleg veikindi og vanlíðan vegna þess að ég veit hvaða alvarlegar afleiðingar þær geta haft ef ekkert er að gert. Það á enginn að þurfa skammast sín fyrir að leita sér hjálpar frekar en það væri líkamlegt.

Þetta er lífsins alvara þar sem hugurinn er fangelsi niðurbrotina hugsana.

Ég glímdi við sjálfsvígshugsanir nær daglega frá 12 ára aldri. Það er sorglegt til þess að vita að við erum að missa 3 til 4 einstaklinga á mánuði á Íslandi fyrir eigin hendi. Þá er það utan við alla þá sem reyna en nýjustu tölur sýna að það séu 500 til 600 einstaklingar á ári.

Kvíðaröskunin félagsfælni er það sem ég þekki best til. Hún er 3. algengasta geðröskunin á eftir þunglyndi og alkóhólisma. Það eru á hverjum tíma 5 til 15% einstaklinga sem glíma við félagsfælni.Og má þá reikna með á hverjum tíma að það séu 15.000 til 45.000 þúsund Íslendingar. Alvarlegt þunglyndi leggst á a.m.k. 25% kvenna og 12% karla á einhverjum tímapunkti í lífi þeirra.

Á hverjum tíma glíma 1 af hverjum 4 við geðheilsuvanda af einhverjum toga og það gera 25% af öllum Íslendingum.

Andleg veikindi og vanlíðan fara ekki í manngreiningarálit.

Að vera barn og þroskast
Kvíða byrjaði ég að finna fyrir þegar ég byrjaði grunnsskóla. Kvíðinn hafði áhrif á námið og mér gekk erfilega að læra þar sem einbeiting var lítil. Um 12 ára aldur var kvíðinn farinn að há mér mikið og orðinn að félagsfælni þar sem ótti og hræðsla um að gera mistök. Ég var byrjaður að setja upp grímu til að lifa af þar sem ég hafði ekki neina sjálfsmynd,sjálfsvirðingu eða sjálfstraust. Átti auðvelt með að roðna og klökkna að sjálfsvígshugsanir voru komnar og ég skammaðist mín fyrir mína líðan. Svo prófið að setja ykkur í spor barns sem líður svona í dag og hvað mynduð þið að yrði gert til þess að hjálpa ykkur? Það eru nefnilega ansi mörg börn sem líður eins og mér og afleiðingar ef ekkert er að gert strax í æsku geta orðið miklar. Þótt mér hafi ekki liðið vel voru íþróttirnar sem héldu mér gangandi. Á þeim tíma varð maður að harka af sér og kröfurnar voru jafnmiklar og núna að standa sig.

Maður mátti ekki sýna að manni liði illa og ætti að rífa sig bara upp og hætta þessu væli. Það segir sig sjálft að birgja vanlíðan og hafa litla einbeitingu og lítið sjálfstraust hefur áhrif á getu og þátttöku í lífinu.

Ég leit út fyrir að fúnkera félagslega, en eftir að ég varð fimmtán sextán ára fór ég aldrei með félögunum í bíó eða neitt svoleiðis. Ég þorði aldrei að fara og þorði aldrei að segja þeim af hverju það var. Ég vissi heldur í rauninni ekki hvað var að mér. Ég réð ekkert við taugakerfið, ég roðnaði og klökknaði í tíma og ótíma og það gerðist bara án þess ég réði nokkru um það. Ég notaði áfengi heilmikið til að slá á líðanina, þegar félagarnir voru að drekka þá gat ég komið, og var oftast búinn að drekka í mig kjark til að komast til þeirra.

Ég fór alla leið upp í meistaraflokk hjá Þór en skipti þá yfir til Magna á Grenivík, vegna þess að ég treysti mér ekki lengur til að vera með gömlu félögunum. Samt var það þannig þegar ég ók til Grenivíkur var ég oft búinn að gefa í og ætlaði að keyra fram af en hætti við sem betur fer. Ég var alltaf að flýja og mikil reiði og pirringur sem getur valdið togstreitu í samskiptum. Alltaf þegar ég lagðist til svefns á kvöldin kveið ég fyrir að vakna daginn eftir, kveið fyrir öllum deginum, kveið fyrir að þurfa að hitta annað fólk.

Ég gat ekki ímyndað mér að ég ætti við andleg veikindi að stríða. Ég hélt að ég væri öðruvísi og var viss um að enginn myndi trúa mér ef ég segði frá hvernig mér liði. Ég var viss um að allir myndu dæma mig og gera lítið úr mér.Baktala og hlæja og myndu segja hvað ég væri vitlaus og heimskur.Ég var nógu brotinn fyrir að það hefði ekki verið á bætandi. Svo ég hélt áfram að birgja vanlíðan og vera með grímu.

Ég hélt nefnilega að fólk sem væri andlega veikt væri eins og maður sér í bandarískum bíómyndum, lokað inni og helst í spennitreyju. Það voru eiginlega einu skiptin sem ég sá fólk með andleg veikindi.

Ég greindist með slitgigt 1994 og er þá 27 ára gamall og þurfti að hætta í boltanum.Ég hélt samt áfram að vera kringum fótboltann og sem liðstjóri hjá Þór og Magna Grenivík.Ég birgði samt alltaf vanlíðan og barst við sjálfan mig á hverjum degi. Ég þurfti hinsvegar að fara í mjaðmaliðaskipti 1998 og aftur sömu megin 2004.

Ég varð óvinnufær eftir þá aðgerð þar sem hún tókst ekki nógu vel og má segja að það hafi bjargað mínu lífi.

Ég var í verkjaskóla á Kristnesi árið 2005 þar sem ég sá í fyrsta skipti hvað ég hafði glímt við síðan ég var barn.Fékk þá bæklinga um kvíða,félagsfælni og þunglyndi. Þetta reyndust bæklingar um mig og það voru ástæður fyrir minni vanlíðan og það var von. En til þess þyrfti ég að taka grímuna af og fá hjálp.

Manneskjan ég er sú sama þótt gríman hafi verið tekin. Þeir sem þekkja mig vita að ég er bara ágætis manneskja og vinur vina minna. Ég hafði tækifæri á að byggja mig upp og öðlast það sjálfstraust sem ég hef þráð síðan ég var barn. Ég þurfti að vinna fyrir því að taka niður grímuna og nýta mér hjálpina með opnum huga.

Hvað hef ég gert
Ég fékk hjálp strax hjá sálfræðingi á Kristnesi og síðan 3 mánuðir í samtalsmeðferð hjá heimilislækni. Ég fór í meðferð hjá SÁÁ og í Starfsendurhæfingu Norðurlands. Ég þurfti að leita mér hjálpar á geðdeild og hef farið 3 sinnum á geðsvið Reykjalundar. Ég fer reglulega á Heilsustofnun í Hveragerði til að halda skrokknum gangandi og um leið þeirri andlegu.

Ég kláraði Ráðgjafaskóla Íslands og var 3 ár í Hugarafli Reykjavík. Ég er einn af stofnendum Grófarinnar sem er geðverndarmiðstöð á Akureyri sem byggir á hugmyndafræði valdeflingar og batamódels. Ég hef opnað mig í fjölmiðlum og verið verkefnisstjóri geðfræðsluteymis Grófarinnar sem hefur farið í fjölda grunn- og framhaldsskóla síðustu ár á norðurlandi og víðsvegar um landið með góðum árangri. Útskrifaðist sem félagsliði vorið 2016 og var að koma úr minni 3 mjaðmaliðaskiptingu sömu megin fyrir 18 mánuðum. Því miður gengur það hægt og þarf að sætta mig við að lifa með verkjum og síþreytu en ég þarf ekki að kvíða hverjum degi og er þáttakandi í lífinu og nýti mína reynslu til góðs.

Ég er að gera hluti sem ég hef þráð síðan ég var barn með að nýta mér hjálpina. Ég er ekki fórnarlamb heldur einstaklingur sem gekk í gegnum erfileika en lifði af sem er ekki sjálfgefið. Ég vil nýta mína reynslu til að gera samfélaginu grein fyrir alvarleika andlegra veikinda og vanlíðan. Ég vil gefa öðrum von að einstaklingar geti fengið hjálp sem fyrst en þurfi ekki að birgja vanlíðan með grímu.

Fordómar og stuðningur í íþróttum
Ég veit um leikmenn sem hafa hætt þar sem þeir þorðu ekki að opna sig.Ég veit um leikmenn sem þurftu að yfirgefa sitt lið vegna skilningsleysis og dómhörku eftir að þeir opnuðu sig.

Félög hafa misst leikmenn sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Margir einstaklingar með andleg veikindi og vanlíðan eiga erfitt með að leita sér hjálpar vegna eigin fordóma. Gerum þeim það auðveldara fyrir og hlustum og virðum.

Hvað gera menn ef þeir meiðast? Jú sjúkraþjálfun.Hvað gera menn ef þeir glíma við andleg veikindi og vanlíðan? Hvað hjálp er í boði?

Það sem maður vill sjá er að einstaklingar fái stuðning og það sé óhætt að tala um sína vanlíðan. Ég vona að íþróttamenn framtíðar þurfi ekki að birgja vanlíðan eins og íþróttamenn fortíðar. Berum virðingu fyrir náunganum í leik og starfi.

Eymundur L. Eymundsson
Ráðgjafi, félagsliði og Þórsari
Athugasemdir
banner
banner
banner