Úrúgvæski varnarmaðurinn Ronald Araujo er einn af mörgum sem hafa verið orðaðir við þýska félagið Bayern München, en Thomas Tuchel, þjálfari liðsins, svaraði þeim fregnum um helgina.
Það er ekkert leyndarmál að Bayern er að leitast eftir því að styrkja vörnina í janúar.
Matthijs de Ligt og Dayot Upamecano hafa báðir misst af leikjum og einnig hinn 18 ára gamli Tarek Buchmann.
Flestir miðverðir í Evrópuboltanum hafa verið orðaðir við Bayern undanfarnar vikur og nú er félagið sagt á eftir Ronald Araujo, leikmanni Barcelona.
Sky spurði Tuchel fyrir 5-1 niðurlæginguna gegn Eintracht Frankfurt í gær hvort hann væri í símasambandi við Araujo og kom kímið svar frá Þjóðverjanum.
„Ég mun ekki kommenta á þetta. Ég talaði líka við mömmu mína í símann og það voru engin skilaboð. Við tölum bara um okkar leikmenn,“ sagði Tuchel, sem blikkaði fréttamanninn í leiðinni.
Athugasemdir