Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   þri 10. desember 2024 21:24
Brynjar Ingi Erluson
Slot ósáttur við frammistöðuna - „Girona á miklu meira skilið“
Arne Slot
Arne Slot
Mynd: EPA
Alisson var magnaður í endurkomu sinni í liðið
Alisson var magnaður í endurkomu sinni í liðið
Mynd: Getty Images
Arne Slot, stjóri Liverpool, var ekkert sérstaklega ánægður með frammistöðu liðsins í 1-0 sigrinum á Girona í Meistaradeildinni í kvöld.

Leikur Girona og Liverpool var jafnari en flestir gerðu ráð fyrir.

Heimamenn fengu færin til að skora en Alisson átti stórleik í endurkomu sinni. Liverpool fékk líka góð færi en eina markið kom úr vítaspyrnu.

Liverpool marði sigur og hefur nú unnið alla sex leiki sína í keppninni, en liðið var alls ekki laust við alla gagnrýni. Slot vill sjá meiri ákefð.

„Ef þú spyrð mig um alla sex leikina þá er ég ánægður með úrslitin. Ég er ánægður með fyrstu fimm leikina, en ég er langt í frá ánægður með frammistöðuna í kvöld. Hvað var ég ekki sáttur með? Það var ansi margt en tveir hlutir sérstaklega,“ sagði Slot.

„Ef þú spilar gegn liði sem er með svona góða hugmynd hvernig á að spila fótbolta og veit hvernig á að spila boltanum frá öftustu línu eins og sum lið sem við höfum spilað við undanfarið eins og Real Madrid og Manchester City, þá þarftu að sýna ákefð til að gera þeim erfitt fyrir.“

„Ef þú bíður í nokkrar sekúndur til að pressa þá getur liðið skapað mörg vandamál fyrir þig. Þeir sýndu það í leikjum sínum í Meistaradeildinni á þessu tímabili, nema gegn PSV, og ég finn nánast til með þeim því þeir eiga svo miklu meira skilið.“

„Við erum með ótrúlegan markvörð, en hitt sem ég var óánægður með var hvað það vantaði meiri grimmd í hvert einasta skipti sem við töpuðum boltanum. Þeir hefðu getað keyrt alla leið að marki og tekið skotið.“

„Við vorum varla með stjórn allan leikinn en kannski aðeins betri í síðari. Ég er að reyna að vera jákvæður, en jafnvel í byrjun síðari, kannski fyrstu fimm eða tíu mínúturnar fengu þeir tvær skyndisóknir.“

„Eins og svo oft áður á tímabilinu þá reyna lið að gera eitthvað öðruvísi gegn okkur en þau eru vön að gera í öðrum leikjum. Það gæti verið hrós í okkar garð og þá vinnu sem við erum að leggja í þetta.“

„Girona spilaði með níu, svona svipað og Leverkusen gerir, og var ekki auðvelt fyrir okkur að ná góðri pressu á þá, en ég held að það hefur ekki mikið að gera með taktík. Við vorum bara ekki nógu grimmir án boltans, en það hjálpaði klárlega þegar við skoruðum markið úr vítinu,“
sagði Slot.
Athugasemdir
banner
banner