Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 11. febrúar 2023 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Tóku gullið á eftirminnilegan hátt - „Margar sem eiga möguleika"
'Stelpurnar voru trylltar af gleði og ég skil það mjög vel'
'Stelpurnar voru trylltar af gleði og ég skil það mjög vel'
Mynd: KSÍ
Fyrir opnunarleik mótsins gegn Portúgal.
Fyrir opnunarleik mótsins gegn Portúgal.
Mynd: KSÍ
'Það eru algjör forréttindi að hafa öflugt og kraftmikið fólk í teyminu'
'Það eru algjör forréttindi að hafa öflugt og kraftmikið fólk í teyminu'
Mynd: KSÍ
'Magnús Örn hefur stýrt U17 ára landsliðinu frá haustinu 2021. Hér er hann með Freyju Stefánsdóttur og Helgu Rut Einarsdóttur sem spiluðu sína fyrstu U17 landsleiki í Portúgal.
'Magnús Örn hefur stýrt U17 ára landsliðinu frá haustinu 2021. Hér er hann með Freyju Stefánsdóttur og Helgu Rut Einarsdóttur sem spiluðu sína fyrstu U17 landsleiki í Portúgal.
Mynd: KSÍ
Emelía Óskarsdóttir er einn efnilegasti leikmaður landsins.
Emelía Óskarsdóttir er einn efnilegasti leikmaður landsins.
Mynd: Kristianstad
Ísabella Sara Tryggvadóttir gerði sigurmarkið gegn Finnlandi.
Ísabella Sara Tryggvadóttir gerði sigurmarkið gegn Finnlandi.
Mynd: Thelma Guðrún Jónsdóttir
'Við eigum svakalega flotta karaktera sem gefa allt sem þær eiga í hvern einasta leik í landsliðsbúningnum. En við þurfum að huga að tækni- og færniþjálfun svo okkur líði betur með boltann'
'Við eigum svakalega flotta karaktera sem gefa allt sem þær eiga í hvern einasta leik í landsliðsbúningnum. En við þurfum að huga að tækni- og færniþjálfun svo okkur líði betur með boltann'
Mynd: KSÍ
Magnús Örn að störfum í hæfileikamótun N1 og KSÍ.
Magnús Örn að störfum í hæfileikamótun N1 og KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er virkilega ánægður með frammistöðuna og úrslitin líka. Það er gaman fyrir okkur öll að fá að upplifa það að fara á alþjóðlegt mót og standa uppi sem sigurvegarar, þó svo að þetta hafi vissulega verið æfingamót," segir Magnús Örn Helgason, þjálfari U17 landsliðs kvenna, í samtali við Fótbolta.net.

Það gerist ekki á hverjum degi að íslenskt landslið standi uppi sem sigurvegari á alþjóðlegu móti, en það gerðist í vikunni er stelpurnar í U17 landsliðinu tóku þátt á æfingamóti í Portúgal.

„Þetta var mjög góð reynsla og ótrúlega vel gert hjá stelpunum," segir Magnús.

Stelpurnar hófu mótið á markalausu jafntefli við Portúgal, sigruðu svo Slóvakíu 2-0 og Finnland 2-1. Íslenska liðið fékk því aðeins eitt mark á sig í þremur leikjum.

„Við erum klárlega sterkari en Slóvakía, en bæði Portúgal og Finnland eru með mjög öflug lið. Við vissum alveg fyrirfram að það yrðu mjög erfiðir leikir. Við töpuðum fyrir Portúgal í móti í maí í fyrra og unnum Finna á Norðurlandamótinu."

Stelpurnar tryggðu sér sigur á mótinu með því að leggja Finnland að velli í lokaleiknum. Sigurmarkið skoraði Ísabella Sara Tryggvadóttir er hún mætti á fjærstöngina í uppbótartíma. Ekki ólíkt því sem faðir hennar, Tryggvi Guðmundsson, gerði oft á sínum ferli.

„Stemningin var alveg ótrúleg í lokaleiknum því þetta voru þvílíkar senur í seinni hálfleiknum, bæði að jafna með stórkostlegu marki frá Sigdísi og skora svo í uppbótartíma. Stelpurnar voru trylltar af gleði og ég skil það mjög vel."

„Ég trúi því. Auðvitað er þetta að miklu leyti undir þeim komið, en það eru margar þarna sem eiga möguleika," segir Magnús aðspurður um hvort leikmenn úr U17 liðinu eigi möguleika á því að verða A-landsliðskonur framtíðarinnar. Hann var sérlega ánægður með framförina sem liðið sýndi varnarlega á þessu móti.

„Við fáum bara á okkur eitt mark á mótinu og það er eitthvað sem gleður mig sem þjálfara mikið. Þegar maður lítur til baka þá höfum við oft spilað vel en fengið á okkur fullmikið af mörkum. Við höfum reynt sem heild að efla varnarleikinn á ýmsa vegu og þá er ofboðslega gaman að fara í alvöru leiki og fá á sig fá færi og mörk. Það er virkilega jákvætt, mikil framför."

Öflugur aðstoðarþjálfari í Portúgal
Athygli vakti að þjálfarinn þrautreyndi Úlfar Hinriksson var með U17 teyminu Portúgal en hann þjálfaði yngri landslið kvenna um árabil og var aðstoðarþjálfari A-landsliðsins um tíma.

„Ég var með afskaplega öflugan aðstoðarþjálfara með mér í þessu verkefni," segir Magnús og bætir við:

„Ég hef í nokkur skipti reynt að fá Úlla með okkur í ferð og þetta sinn sló hann til. Úlfar er að mínu áliti einn sá snjallasti í bransanum og það hjálpaði mér og öllum hópnum mikið að hafa hann með. Hann sér hluti sem ég ekki sé og ýtir við mér á jákvæðan hátt. Það eru algjör forréttindi að hafa öflugt og kraftmikið fólk í teyminu og það var sannarlega raunin í þessari ferð."

Mikil vonbrigði á síðasta ári
Síðasta ár var svekkjandi fyrir liðið þar sem það endaði í neðsta sæti í riðli sínum í undankeppni EM. Liðið féll þar með í B-deild undankeppninnar, en það verður að vinna sig aftur upp í A-deild til að komast á lokamót.

„Það má kannski segja að við séum ekki lengur í undankeppninni. Við þurfum að vinna okkar riðil svo Ísland spili á nýjan leik í A-deild í haust," segir Magnús.

„Við lentum í langerfiðasta riðlinum, með Sviss, Ítalíu og Frakklandi. Við vorum herslumuninum frá því að komast áfram. Sviss eru betri en við, það er alveg klárt. En við gerum jafntefli á móti Ítalíu í spennandi leik og erum svo yfir í hálfleik á móti Frökkum. Við missum það klaufalega niður en skorum mark í lokin sem hefði fleytt okkur áfram. Það er dæmt af og það voru gagnstæðar tilfinningar við það sem við upplifðum á þriðjudaginn þegar allt gekk upp í lokin. Svona er fótboltinn, hann gefur og tekur."

Það er óhætt að segja að Ísland hafi lent í vafasamri dómgæslu í leiknum gegn Frakklandi þar sem mark var tekið af liðinu, mark sem hefði fleytt liðinu áfram.

Þjálfarinn segir að sigur á æfingamótinu í Portúgal geti hjálpað liðinu þegar alvaran tekur við í mars í undankeppni EM.

„Ekki spurning. Þegar þú ert að vinna með svona unga leikmenn þá viltu ekki að það snúist allt um að vinna eða tapa, en það breytir því samt ekki að það að ná árangri er vítamínssprauta fyrir alla sem eru í íþróttum. Þetta mun pottþétt gefa okkur sjálfstraust inn í mars verkefnið."

Emelía færð upp í U19 landsliðið
Emelía Óskarsdóttir, einn efnilegasti leikmaður landsins, var ekki með á þessu æfingamóti en hún fer með U19 ára liðinu á æfingamót síðar í mánuðinum. Emelía, sem er á mála hjá Kristianstad í Svíþjóð, er aðeins 16 ára gömul.

„Emelía var með okkur á Norðurlandamótinu og í forkeppni EM í fyrra. Hún var ekki með okkur núna því það var tekin ákvörðun um að færa hana upp í U19 liðið. Það er ákvörðun sem ég skil bara mjög vel," segir Magnús.

„Það fer kannski enginn í hennar skó í þessu liði, en þá koma bara inn leikmenn sem gera aðra hluti. Emelía er feikilega öflugur leikmaður og mun örugglega hjálpa U19 liðinu helling í þeim verkefnum sem eru framundan hjá þeim."

„Maður vinnur úr því sem maður hefur. Það eru margar mjög frambærilegar stelpur sem ég hef unnið með og hef verið að vinna með síðasta eina og hálfa árið. Það er áskorun að missa sterkan leikmann út og takast á við það, en það er hluti af þessu starfi að leikmenn spili ekki alltaf í sínum aldursflokki. Spurðu bara Davíð Snorra," segir Magnús og vísar í Davíð Snorra Jónasson, þjálfara U21 ára landsliðs karla, sem var í síðustu undankeppni án sterkra leikmanna sem voru þá í A-landsliðinu. Má þar nefna Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson sem dæmi.

Magnús segir mögulegt að fleiri leikmenn verði færðir upp í U19 landsliðið úr U17.

„Það er alveg möguleiki á því að fleiri leikmenn verði færðir upp fyrir milliriðlana í mars og apríl. Það er eitthvað sem kemur í ljós á næstu vikum. En við munum alltaf tefla fram öflugu liði þegar við förum til Albaníu í mars."

U17 á mikilvæga leiki í lok mars og U19 landsliðið spilar svo í milliriðli snemma í apríl. Emelía eða aðrir leikmenn úr U17 geta ekki tekið þátt í báðum þessum verkefnum.

„Fyrir nokkrum árum setti UEFA þá reglu að stelpur megi ekki spila með U17 og U19 í sömu umferð í Evrópukeppni. Þetta hefur örugglega verið gert út af því að lönd voru í miklum mæli að keyra á á sömu stelpunum í U17, U19 og hugsanlega í A-landsliði. Þessi regla er ekki hjá strákunum og það er líklega verið að reyna að koma í veg fyrir ofkeyrslu," segir Magnús.

Framtíðin björt en verðum líka að bæta okkur
Magnús Örn hefur þjálfað U17 landsliðið frá því haustið 2021 en hann hættir með liðið eftir mótið í Albaníu í mars.

„Verkefnið í Albaníu er síðasta verkefni 2006 liðsins og ég klára það. Það verður síðasta verkefnið mitt með U17. Ég er nýtekinn við U15 ára hópnum og mun halda áfram með Hæfileikamótun N1 og KSÍ. Það er vilji hjá KSÍ til að efla starfið í yngri landsliðunum og þessi breyting er hluti af því,“ segir Magnús.

„Ég var beðinn að taka þetta að mér og það er spennandi að mörgu leyti - að fá að taka á móti krökkunum og hjálpa þeim með sín fyrstu skref í landsliðsumhverfinu. Með þau sem eru yngri eru meiri möguleikar á því að leggja línurnar og veita innblástur inn eldri liðin. Þetta er mjög spennandi þó maður eigi eftir að sakna þess að fara með U17 í þessi skemmtilegu og spennandi mót."

En kom til greina að Magnús myndi fylgja núverandi U17 hóp upp í U19?

„Það hefði óneitanlega verið gaman að halda áfram að vinna með þessum frábæra hópi. En sú hurð var einfaldlega ekki opin. Og það er ekkert vandamál því það eru spennandi verkefni sem bíða," segir þjálfarinn en er hann ánægður með það hvernig hann skilur við starfið?

„Ég get svarað því eftir Albaníu því það er mjög mikilvægt að við komum okkur upp í A-deildina. Varðandi hópinn þá held ég að síðasta eina og hálfa árið hafi verið lærdómsríkt fyrir stelpurnar og þær hafi fengið reynslu og vonandi góða leiðsögn sem muni hjálpa þeim á næstu árum."

Er framtíðin björt fyrir íslensku landsliðin?

„Ég held að framtíðin sé björt en við verðum líka að reyna að bæta okkur í ákveðnum þáttum sem við erum eftir á miðað við aðrar þjóðir í Evrópu. Þegar maður fer að spila þessa landsleiki þá sér maður að grunnfærnin er einfaldlega lægri hjá íslenskum leikmönnum en hjá mörgum öðrum þjóðum sem við mætum. Við þurfum sem fótboltasamfélag að huga betur að þjálfun, og ekki síst tækniþjálfun, hjá stelpum svo þær séu með betri grunn þegar þær komast í alþjóðlegan fótbolta."

„Við erum alltaf með einstaklingsgæði og ég hef ekki kynnst öðru en að við séum með svakalega flotta karaktera sem gefa allt sem þær eiga í hvern einasta leik í landsliðsbúningnum. En við þurfum að huga að tækni- og færniþjálfun svo okkur líði betur með boltann," sagði Magnús Örn að lokum en það verður spennandi að fylgjast með yngri landsliðunum í mars og apríl.


Athugasemdir
banner
banner
banner