Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
banner
   sun 11. febrúar 2024 20:52
Brynjar Ingi Erluson
Elías átti góðan leik í marki Mafra - Umdeilt atvik í Hollandi
Elías Rafn Ólafsson
Elías Rafn Ólafsson
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson stóð sig vel í marki Mafra í 1-1 jafntefli gegn varaliði Porto í portúgölsku B-deildinni í dag.

Elías Rafn, sem er á láni frá Midtjylland, hefur gert fína hluti í marki Mafra á tímabilinu.

Hann var einn af bestu mönnum liðsins í dag gegn varaliði Porto, en hann varði fimm skot í leiknum.

Snemma í síðari hálfleik fengu Porto-menn vítaspyrnu en hreyfingar Elíasar á línunni tóku greinilega brasilíska leikmanninn Wendell á taugum, því hann hamraði boltanum í þverslá.

Mafra nýtti sér þetta klúður og jafnaði leikinn um það bil tuttugu mínútum síðar og þar við sat.

Mafra er í 7. sæti B-deildarinnar með 30 stig.

Kristian Nökkvi Hlynsson lék þá allan leikinn fyrir Ajax sem tapaði fyrir Heerenveen, 3-2, í hollensku úrvalsdeildinni.

Heimamenn í Heerenveen komust þremur mörkum yfir en Ajax minnkaði muninn í 3-2. Undir lok leiksins kom Josip Sutalo boltanum á markið, en leikmenn Heerenveen björguðu á línu. Erfitt er að segja til um hvort boltinn hafi farið alveg yfir línuna eða ekki.

Ajax fékk ekki markið og lokatölur því 3-2 Heerenveen í vil. Ajax er í 5. sæti með 35 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner