Skoska stórveldið Celtic er búið að staðfesta samkomulag við Kieran Tierney, sem gengur til liðs við félagið þegar samningur hans við Arsenal rennur út næsta sumar.
Tierney er skoskur vinstri bakvörður sem ólst upp hjá Celtic og gerði flotta hluti hjá félaginu, sem varð til þess að Arsenal festi kaup á honum fyrir 25 milljónir punda sumarið 2019.
Tierney hefur síðan þá spilað 129 leiki fyrir Arsenal í öllum keppnum en hann lék á láni hjá Real Sociedad á síðustu leiktíð.
Tierney er 27 ára gamall og hefur spilað 47 landsleiki fyrir Skotland á ferlinum.
„Í janúarglugganum 2025 fengum við Jota á lánssamningi og keyptum Jeffrey Schlupp," segir meðal annars í opinberri skýrslu frá Celtic.
„Þar að auki framlengdum við samning við Kasper Schmeichel og gerðum forsamning við Kieran Tierney sem mun snúa aftur til liðs við Celtic í júlí 2025.
„Kyogo Furuhashi og Alexander Bernabei voru seldir á meðan Luis Palma, Odin Holm og Stephen Welsh voru lánaðir út."
Tierney spilaði 170 leiki í heildina á fjórum árum með aðalliði Celtic. Nú fær hann tækifæri til að bæta við þann fjölda og skrá sig í sögubækur félagsins.
Tierney vann skosku deildina fjögur ár í röð hjá Celtic, auk þess að vinna bikarinn tvisvar og deildabikarinn tvisvar. Hann var þrisvar sinnum valinn í lið ársins í efstu deild skoska boltans og var þrjú ár í röð valinn sem besti ungi leikmaður Celtic og Skotlands.
Athugasemdir