
Kvennalandsliðið mun í næsta mánuði spila tvo leiki á heimavelli Þróttar í Laugardalnum. Um er að ræða heimaleiki íslenska liðsins í Þjóðadeildinni en ekki er hægt að spila á þjóðarleikvanginum, Laugardalsvelli, vegna framkvæmda á vellinum. Leikirnir fara fram 4. apríl og 8. apríl.
Fótbolti.net ræddi við Jörund Áka Sveinsson, yfirmann fótboltamála hjá KSÍ, um þá niðurstöðu að spilað yrði á Þróttarvelli gegn Noregi og Sviss.
Fótbolti.net ræddi við Jörund Áka Sveinsson, yfirmann fótboltamála hjá KSÍ, um þá niðurstöðu að spilað yrði á Þróttarvelli gegn Noregi og Sviss.
„Við fórum af stað að finna besta mögulega kostinn fyrir kvennalandsliðið okkar. Kröfur UEFA eru aðeins minni kvennamegin heldur en karlamegin, þannig það kom aldrei til greina að fara með leikina erlendis þar sem að gervigrasvellir á Íslandi uppfylla margir hverjir skilyrði UEFA. Þegar þessir leikir fara fram er Breiðablik að byrja Bestu deildina. Við höfum átt hrikalega gott samstarf við Þróttara, þeir voru með framkvæmd á U17 ára riðlinum í haust, gervigrasið þeirra er nýtt og lýsingin þeirra er alls ekki síðri en í Kópavogi."
Riðill í forkeppni EM U17 ára landsliða fór fram á Þróttarvellinum, AVIS vellinum, í forkeppni EM í vetur.
„Völlurinn uppfyllir öll þau skilyrði sem við teljum nauðsynleg fyrir þessa leiki. Þeir fara fram þarna af því að Laugardalsvöllur verður ekki klár. Þetta er bara tímabundið og við erum Þrótturum afar þakklát að þau ætli að taka þetta verkefni að sér með okkur. Ég held þetta sé mjög fín lending."
Síðustu misseri, þegar kvennalandsliðið hefur átt heimaleiki að vetri til, hefur liðið spilað á Kópavogsvelli. Eins og Jörundur segir er flóknara að spila þar í þetta skiptið þar sem Íslandsmótið er að fara af stað í Bestu deild karla og Kópavogsvöllur er heimavöllur Breiðabliks.
„Karlalið Breiðabliks er að byrja Íslandsmótið þegar þessir leikir fara fram. Það hefði verið heilmikið rask fyrir Breiðablik þar sem við hefðum eiginlega þurft að fá allt mannvirkið undir okkar tvo leiki. Það hefði orðið ansi mikið inngrip sem hefði haft truflandi áhrif. Lengjudeildin hefst ekki á sama tíma (og Besta deild kvenna ekki fyrr en eftir landsleikina). Þetta var skoðað út frá öllum hliðum og við erum bara mjög sátt við þetta. Það eru auðvitað örlítið færri sæti en eru á Kópavogsvelli, en það er víst ekki hægt að fá allt."
„Vonandi verður Laugardalsvöllur klár í júní svo við getum spilað þar kvennalandsleik við Frakka 3. júní. Það er planið og vonandi tekst það. Það þarf samt allt að ganga upp," segir Jörundur Áki.
Athugasemdir