Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 11. júní 2019 18:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freyr um Jóa Berg: Við erum með plan B klárt
Icelandair
Jóhann Berg skoraði sigurmarkið í síðasta leik gegn Albaníu.
Jóhann Berg skoraði sigurmarkið í síðasta leik gegn Albaníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, ræddi við RÚV um liðsvalið fyrir leikinn gegn Tyrkjum í kvöld. Leikurinn hefst 18:45.

Ísland mætir Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld. Leikurinn er í undankeppni EM. Ísland er með sex stig og Tyrkland níu stig.

Ísland gerir tvær breytingar á byrjunarliðinu frá 1-0 sigrinum gegn Albaníu. Emil Hallfreðsson og Jón Daði Böðvarsson koma inn í byrjunarliðið í stað Rúnars Más og Viðars Arnar.

„Emil fer inn á miðju og Birkir vinstra megin. Emil kemur inn með mikla reynslu og öryggi á boltanum. Við þurfum að passa upp á boltann okkar og tapa honum ekki að óþörfu," sagði Freyr.

„Jón Daði kemur fram með allt aðra kosti en Viðar Örn. Hann mun hleypa mikið á bak við línurnar og djöflast. Hann er ólíkindatól og tekur mikla orku frá andstæðingnum. Með því að fá hann inn á getum við mögulega hlaupið í eyður sem við höfum séð frá tyrkneska liðinu. Hann getur líka skapað pláss fyrir Gylfa, Jóa og Birki á milli varnar og miðju."

„Sóknarlega er það ástæðan, varnarlega þá kunna þeir kerfið mjög vel. Þetta eru reynslumiklir leikmenn sem vita hvað svona leikir snúast um. Rúnar og Viðar stóðu sig vel á móti Albaníu. Þetta er einugis taktískt."

Jóhann Berg Guðmundsson og Birkir Bjarnason byrja báðir. Þeir voru báðir tæpir fyrir leikinn.

„Þeir eru báðir klárir í slaginn. Það er sama með Jóa og á laugardaginn, hann spilar eins lengi og kálfinn leyfir honum. Hvað það verður lengi kemur í ljós. Við vonum það besta. Þetta er sama staða á laugardaginn, þá spilaði hann 55 mínútur. Við erum með plan B klárt."

Horfa má á viðtalið hérna.

Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu frá leiknum.
Athugasemdir
banner
banner
banner