Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   þri 11. júní 2024 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mist Rúnars spáir í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna
Mist Rúnarsdóttir.
Mist Rúnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist spáir því að Sandra María tryggi Þór/KA sigur í framlengingu.
Mist spáir því að Sandra María tryggi Þór/KA sigur í framlengingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Átta-liða úrslitin í Mjólkurbikar kvenna verða leikin í heild sinni í dag. Allir fjórir leikirnir fara fram í kvöld og verða þeir allir í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.

Við fengum Mist Rúnarsdóttur, sem hefur verið leiðandi í umfjöllun um kvennaboltann síðustu árin, til að spá í leikina sem eru framundan.

FH 0 - 1 Þór/KA (17:15 í kvöld)
Það voru ótrúlegar tölur þegar liðin mættust í deildinni og FH-ingar verða með SMJ undir smásjá. Það mun þó ekki duga til og besti leikmaður Íslandsmótsins til þessa mun tryggja Þór/KA sigur í framlengingu. Þetta verður annars leikur markmannanna og fullt af flottum klippum að skoða eftir leik. Það verður bongó í stúkunni og gríðarlega hátt spennustig.

Breiðablik 3 - 0 Keflavík (19:15 í kvöld)
Blikar eru óstöðvandi þessa stundina og það verður engin breyting á því í bikarnum. Þetta verður nokkuð þægilegt og sannfærandi hjá Kópavogskonum og ég sé fyrir mér svipuð úrslit og þegar liðin mættust í deildinni. Olla setur sitt fyrsta mark í grænu og frumsýnir nýtt fagn. Vigdís og Hrafnhildur Ása komast líka á blað í 3-0 sigri. Blikar fá svo Val í undanúrslitum.

Grindavík 0 - 7 Valur (19:15 í kvöld)
Grindavíkurliðið er spennandi og hefur verið ólseigt í bikarnum til þessa. Stjörnumprýtt Valsliðið er hinsvegar alltof stór biti fyrir þær gulklæddu og það stefnir í að Valsliðið bursti annað Lengjudeildarlið úr keppni. Amanda setur þrennu eins og í 16-liða úrslitunum og það gerir sjóðheit Ísabella Sara líka. Þórdís Hrönn setur svo sjöunda markið í öruggum sigri.

Afturelding 1 - 3 Þróttur R. (20:00 í kvöld)
Þetta verður mjög áhugaverður leikur. Topplið Lengjudeildarinnar á heimavelli gegn botnliði Bestu deildarinnar. Heimakonur hafa verið gríðarlega flottar bæði í deild og bikar í sumar og slógu út bikarmeistara Víkings í síðustu umferð! Verða þær kannski spútnikliðið í ár? Þrótturum hefur gengið afleitlega að nýta færin sín í deildinni – þar til í síðustu umferð – en settu fimm í síðasta bikarleik og einhverjir vilja meina að markastíflan sé brostin. Þetta verður leikur tveggja vel skipulagðra liða sem bæði munu nýta færin sín þokkalega og það mun duga gestunum. Hildur Karítas skorar sitt fimmta bikarmark en Freyja Karín (2) og Ísabella klára leikinn fyrir Þrótt.
Athugasemdir
banner
banner
banner