„Hefnd er efst í huga. Við vorum gríðarlega óánægðir með þann leik, en við erum ekki bara að hugsa um hefnd, við viljum spila góðan leik og ná fram sigri á heimavelli. Það er aðalatriðið að byrja safna alvöru punktum í þessari undankeppni," sagði landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason við Fótbolta.net í dag. Næsti leikur liðsins er gegn Lúxemborg á föstudag og fer sá leikur fram á Laugardalsvelli.
„Það var ekkert eðlilega ljúf tilfinning, rosalegur léttir yfir manni eftir þann leik; eiginlega svolítið ólýsanleg tilfinning. Maður fann að þjóðin þurfti á sigri að halda og það var hrikalega kærkomið. Maður var svolítið búinn að gleyma hvernig tilfinningin væri að vinna svona mikilvægan leik á Laugardalsvelli. Það er fátt sem toppar það," sagði Alfreð um sigurinn gegn Bosníu sem kom nokkrum dögum efti tapið slæma í Lúxemborg.
Langt í næstu menn á markalistanum
Alfreð skoraði sigurmarkið í þeim leik eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Hann er kominn með sautján landsliðsmörk á ferlinum. Átta mörk eru upp í Gylfa Sigurðsson sem er næsti maður á lista. Þar fyrir ofan eru þeir Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári með 26 mörk. Er hann að horfa upp listann?
„Það er alveg svolítið langt í næstu menn, það þurfa að koma aðeins mörk til að maður fari að kíkja ofar á listann. Auðvitað veit maður af því hvernig staðan er á listanum, en það er ekkert sem ég er að spá í daglega."
„Það er sama og alltaf, þegar maður er á bekknum þá er maður alltaf svekktur. En í svona túrneringu þar sem stutt er á milli leikja, ferðalag og leikurinn í Lúxemborg var erfiður líkamlega, þá er alveg eðlilegt að settar séu inn ferskar lappir. Maður getur tekið því á marga vegu. Það var engin spurning að þegar maður fengi sénsinn að ég myndi reyna nýta og sýna að það hafi ekki verið rétt ákvörðun."
Ekki með nógu mörg stig til að horfa á 2. sætið
Það er möguleiki, þó lítill sé, á 2. sætinu í riðlinum. Er hópurinn að horfa í hann?
„Við getum ekki verið að horfa svona langt fram í tímann, þurfum að taka leik fyrir leik af því að við erum ekki með nógu mörg stig til að vera tala um annað sætið. Við þurfum að vinna á föstudaginn og hugsa bara um þann leik núna. Það þarf margt að ganga upp svo það verði einhver raunveruleiki."
Geggjað að fá þá tvo aftur
Hvernig er að fá Aron og Gylfa inn í hópinn?
„Það er geggjað, Aron var náttúrulega í sumar en við höfum kannski ekki fengið að nýta krafta hans innan vallar - við vitum öll hvað hann gefur liðinu. Hann er búinn að vera flottur á æfingum."
„Svo er Gylfi kominn inn í þetta líka. Það er ótrúlegt hvað hann er búinn að vera 'sharp', maður sér gamla takta. Ég held það sé ákveðinn sigur fyrir íslenskan fótbolta að fá hann aftur á völlinn. Við vitum hvað þeir tveir gefa okkur; Gylfi gefur okkur ótrúlega mikil gæði á síðasta þriðjungi. Það er geggjað að fá að vera með vinum mínum aftur hér í landsliðinu," sagði Alfreð að lokum.
Alfreð er í viðtalinu, sem má sjá í heild sinni í spilaranum efst, einnig spurður út í Eupen og vangaveltur um hans framtíð eftir leikmannaferilinn.
Stöðutaflan
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | |
Athugasemdir























