Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   mið 11. október 2023 17:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kári um möguleikann á að Birnir fari á frjálsri sölu: Ætla ekki að ræða hvað stendur í samningum
Fer Birnir erlendis á frjálsri sölu?
Fer Birnir erlendis á frjálsri sölu?
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslands- og bikarmeistari á tímabilinu.
Íslands- og bikarmeistari á tímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Átti frábært tímabil.
Átti frábært tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Rafn Sigurðarson, fyrrum fréttamaður hér á Fótbolti.net, vakti athygli á því á Twitter í dag að ákvæði væri í samningi Birnis Snæs Ingasonar sem gerði honum kleift að fara á frjálsri sölu erlendis. Ákvæðið væri þó einungis í gildi tímabundið.

„Birnir Snær Ingason er með klásúlu í samning sínum um að hann megi fara frítt frá Víkingum fyrir ákveðna dagsetningu. Það er mikill áhugi á Birni í Noregi og hefur verið í allt sumar. Mínar heimildir segja að miklar líkur séu á að Birnir fari út í atvinnumennskuna," skrifar Orri.

Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason sem er yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi og var hann spurður út í meint ákvæði í samningnum.

„Ég ætla ekki að ræða hvað stendur í samningum hjá mönnum," sagði Kári.

Birnir skrifaði undir nýjan samning við Víking í sumar. Hann átti frábært tímabil og var valinn besti leikmaður mótsins hér á Fótbolti.net sem og af leikmönnum deildarinnar. Samningur Birnis við Víking gildir út tímabilið 2025.

„Þetta var stór ákvörðun fyrir mig. Ég er að fara að skrifa undir fyrir kannski stærstu árin mín í fótboltanum. Ég var samt alltaf skýr með það að ég vildi vera áfram í Víkingi ef ég væri áfram á Íslandi," sagði Birnir í viðtali við Fótbolta.net eftir undirskrift. „Það eru einhverjar klásúlur í samningnum eins og gengur og gerist," sagði Birnir í sama viðtali þegar hann var spurður út í möguleikann að fara út.

„Ég vona hans vegna að hann muni fá tækifæri að fara erlendis. Ef það gerist í vetur þá erum við kannski að gefa honum smá meiri hausverk ef við getum boðið honum Meistaradeildarfótbolta, að verja titla, reyna að vera lið sem kemst í Evrópu og svo framvegis á móti því að fara bara út til að fara, þó ég skilji það vel að það sé draumur allra leikmanni. Vonandi erum við að gefa honum smá hausverk ef tækifæri býðst til í vetur," sagði þjálfarinn Arnar Gunnlaugsson í lok júlí um möguleikann á því Birnir færi erlendis.

   28.07.2023 11:37
Birnir talaði ekki við önnur félög á Íslandi - „Stór ákvörðun fyrir mig"

   28.07.2023 12:17
Arnar gæti ekki verið ánægðari - „Þá erum við tilbúnir að stökkva á það líka"


Athugasemdir
banner
banner