Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fös 11. október 2024 08:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
40 ár frá eina sigrinum gegn Wales
Icelandair
Með sigri í kvöld getur Ísland unnið sinn þriðja heimaleik í röð.
Með sigri í kvöld getur Ísland unnið sinn þriðja heimaleik í röð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karlalandslið Íslands og Wales mætast í áttunda skiptið í sögunni í kvöld. Í fyrstu sjö leikjunum vann Wales fimm sigra, liðin gerðu eitt jafntefli og Ísland vann einu sinni.

Sigur Íslands kom í september árið 1984 á Laugardalsvelli í undankeppni fyrir HM 1986. Ísland vann 1-0 sigur og skoraði Magnús Helgi Bergs eina mark leiksins á 52. mínútu. Ásgeir Sigurvinsson var fyrirliði Íslands í leiknum.

Þetta var seinna mark Magnúsar á landsliðsferlinum en það fyrra hafði komið þremur árum áður í 6-1 tapi gegn Tékkóslóvakíu. Alls lék hann 16 landsleiki. Á ferli sínum lék hann með Val, Þrótti og Stjörnunni á Íslandi en erlendis lék hann m.a. með Dortmund og Racing de Santander.

Ísland og Wales mættust síðast árið 2014 á heimavelli Cardiff City. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði eina mark Íslands í 3-1 tapi í vináttuleik. Gareth Bale fór hamförum í leiknum og réði íslenska liðið ekkert við hann.

BBC hitar upp fyrir leikinn og kemur inn á þá staðreynd að íslenska liðið er taplaust í síðustu fjórum heimaleikjum sínum. Í síðustu fjórum leikjum hefur liðið sigrað Svartfjalland, Liechtenstein, gert jafntefli gegn Lúxemborg og unnið Bosníu-Hersegóvínu. Sigri Ísland í kvöld verður það í fyrsta sinn síðan 2019 sem Ísland vinnur þrjá heimaleiki í röð.

Til þess að íslenska liðið vinni þarf að hafa hemil á hinum funheita Brennan Johnson sem hefur skorað sex mörk í síðustu sex leikjum Tottenham. Þá er Harry Wilson funheitur með velska landsliðinu en hann hefur komið að sjö mörkum í síðustu átta byrjunarliðsleikjum sínum með landsliðinu.

Landslið karla - Þjóðadeild
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Wales 6 3 3 0 9 - 4 +5 12
2.    Tyrkland 6 3 2 1 9 - 6 +3 11
3.    Ísland 6 2 1 3 10 - 13 -3 7
4.    Svartfjallaland 6 1 0 5 4 - 9 -5 3
Athugasemdir
banner